Ársskýrsla
2020

Ávarp forstjóra
Heimsbyggðin öll hefur staðið frammi fyrir áður óþekktri áskorun síðastliðið ár vegna heimsfaraldurs og hafa allir þurft að laga sig að gerbreyttum aðstæðum. Starfsemi og þjónusta Hugverkastofunnar er þar ekki undanskilin og á mjög stuttum tíma voru allar þjónustuleiðir stofnunarinnar komnar á rafrænt form og flestir starfsmenn í fjarvinnu. Starfsfólk stofnunarinnar á mikið lof skilið fyrir sveigjanleika, aðlögunarhæfni, þolinmæði og þrautseigju á þessum óvissutímum og tímum umbreytinga.
Starfsemi og hlutverk 2020
Í lok ársins 2020 var starfsmannafjöldi Hugverkastofunnar 36. Þar af var einn starfsmaður í fæðingarorlofi og einn starfsmaður starfaði hjá Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) sem sérfræðingur sem lánaður er til starfa.


Hugverkasvið

Rekstrarsvið

Faggildingarsvið
Starfsemi og hlutverk 2021
Í lok árs 2020 var tekin ákvörðun um að uppfæra stefnu Hugverkastofunnar. Sú vinna fór af stað í byrjun árs 2021 og samhliða var skipurit stofnunarinnar endurskoðað. Í endurskoðaðri stefnu sem gildir til ársloka 2021 er áhersla lögð á stafræna umbreytingu Hugverkastofunnar og tekur nýtt skipurit mið af því.


Hugverkasvið

Rekstrarsvið

Þjónustusvið

Skrifstofa forstjóra
Skrifstofan veitir jafnframt lögfræðilega ráðgjöf og vinnur einnig sjálfstætt að tilteknum verkefnum eða málaflokkum í samvinnu við forstjóra eða sviðsstjóra.
Innlent samstarf
Hugverkastofan á einnig í samtali við umboðsmenn hugverkaréttinda á sviði iðnaðar. Hún fundar reglulega með Félagi umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa (FUVE) og Félagi einkaleyfasérfræðinga (FEIS) til að miðla upplýsingum og tryggja að stofnunin veiti viðskiptavinum bestu þjónustu sem völ er á.
Erlent samstarf
Þessi vinna fer að miklu leyti fram á vettvangi Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO) en Hugverkastofan tekur virkan þátt í stjórnun stofnunarinnar sem fulltrúi eins af 38 aðildarríkjum hennar. Forstjóri Hugverkastofunnar var kosinn varaformaður framkvæmdaráðs EPO til þriggja ára í maí 2019, auk þess sem Hugverkastofan er þátttakandi í margs konar tæknilegum og lögfræðilegum verkefnum sem öll miða að því að gera upplýsingar um einkaleyfi og umsóknir aðgengilegri fyrir notendur á heimsvísu og samræma túlkun aðildarríkjanna á sambærilegri löggjöf. Þá taka starfsmenn stofnunarinnar þátt bæði í fundum og námskeiðum á vegum Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) sem Ísland er aðili að.
Hugverkastofan á einnig í viðamiklu samstarfi á vettvangi Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO), Nordic Patent Institute (NPI) og Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), auk samstarfs á milli einkaleyfa- og hugverkastofa Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna.
Aðgerðir vegna COVID-19
Þegar heimsfaraldur COVID-19 skall á hér á landi í marsmánuði var gripið til víðtækra aðgerða til að laga starfsemi Hugverkastofunnar að breyttum aðstæðum. Öryggi og velferð starfsfólks og viðskiptavina var þar í fyrirrúmi en einnig var lögð áhersla á að þær aðstæður sem sköpuðust hefðu sem minnst áhrif á starfsemi og þjónustu Hugverkastofunnar.
Móttaka stofnunarinnar lokaði tímabundið 16. mars. Sérfræðingar stofnunarinnar í upplýsingatækni gerðu á skömmum tíma fjarvinnu starfsfólks mögulega með hliðsjón af búnaði og öryggistengingum en á örfáum dögum skipti stór hluti starfsfólks yfir í fjarvinnu. Þrátt fyrir þessar breytingar var hvorki að sjá verulegar breytingar í umsóknarfjölda né áhrif á vinnuafköst starfsfólks. Þvert á móti var t.d. mikil aukning í fjölda vörumerkjaumsókna sem rannsakaðar voru á árinu samanborið við árið á undan.
Móttaka Hugverkastofunnar hefur verið að mestu lokuð frá því faraldurinn hófst og á sama tíma hefur öll þjónusta verið rafræn. Hægt er að bóka fjarfund með ráðgjafa í gegnum heimasíðuna en mikil eftirspurn hefur verið eftir ráðgjöf á tímabilinu. Sérstök áhersla var svo lögð á rafrænar lausnir til að geta tekið á móti öllum gögnum og erindum rafrænt.
Við erum til rafrænnar þjónustu reiðubúin

Þjónusta Hugverkastofunnar
Á árinu 2020 var haldið áfram með ýmsar aðgerðir til að byggja upp og bæta þjónustu með nýjustu tækni og þarfir viðskiptavina að leiðarljósi. Aðgerðirnar eru í takt við stefnu stofnunarinnar fyrir árin 2018-2022, en þær miða að því að auka fagmennsku og sýnileika, bæta rafræna upplifun og innleiða nýjar og bættar þjónustuleiðir. Þetta kom sér vel þegar heimsfaraldur skall á í byrjun árs og loka þurfti móttökunni. Nýjar og bættar þjónustuleiðir gerðu mögulegt að halda óbreyttu þjónustustigi og áframhaldandi góðum samskiptum við viðskiptavini.
Rafræn þjónusta
Fyrirfram bókuð ráðgjöf í formi símtala eða fjarfunda jókst jafnt og þétt á árinu, þá fjölgaði rafrænum fyrirspurnum einnig. Á heimsíðunni, www.hugverk.is, er í boði að skilja eftir skilaboð allan sólarhringinn.
Allir reikningar Hugverkastofunnar orðnir rafrænir
Hugverkastofan sér um að senda reikningana út til viðskiptavina. Þeir eru aðgengilegir í pósthólfinu á Ísland.is. Jafnframt er í boði að fá reikninga senda rafrænt með tölvupósti.
Rafræn útgáfa reikninga er í takt við stefnu Hugverkastofunnar frá árinu 2018, en þar kemur fram að sérstök áhersla verði lögð á að starfsemi stofnunarinnar hafi sem minnst áhrif á umhverfið og að markvisst verði leitað leiða til að draga úr sóun.
Mögulegt að leggja inn öll gögn rafrænt
Í ljósi heimilda stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um rafræna stjórnsýslu tekur Hugverkastofan rafræn gögn gild þegar áskilnaður er í lögum eða reglugerðum um frumrit og eins samþykkir stofnunin áfram eiginhandarundirskriftir án þess að kalla eftir frumriti viðkomandi skjals.
Hugverkastofan áskilur sér þó þann rétt að kalla eftir frumriti gagna á pappír í þeim tilvikum sem ástæða er talin til,svo sem ef líkur eru á því að gögnin séu ekki óbreytt frá upprunalegri gerð.
Madrid e-Filing í boði hjá Hugverkastofunni
Með alþjóðlegri vörumerkjaumsókn hjá Alþjóðahugverkastofunni er hægt að sækja um skráningu vörumerkis í einu eða fleiri aðildarríkjum Madrid-bókunarinnar. Hægt er að velja yfir 100 ríki í umsókninni og má þar nefna Evrópusambandið, Kína og Bandaríkin.
Nýtt rafrænt form fyrir umsóknir um vörumerki
Helstu nýjungar nýja umsóknarformsins eru:
Bætt upplýsingagjöf til viðskiptavina
Ný ensk heimasíða

Nýjar tegundir vörumerkja
Með nýjum tegundum vörumerkja gefast aukin tækifæri til verndunar vörumerkja á Íslandi. Taktu þátt í skemmtilegum leik og giskaðu á öll merkin.
Hversu mörg vörumerki þekkir þú?
Breytingar á lögum um vörumerki
Gagngerar breytingar áttu sér stað þann 1. september 2020 í tengslum við umsýslu og skráningu merkja hér á landi með gildistöku laga nr. 71/2020 um breytingu á lögum um vörumerki nr. 45/1997. Á sama tíma tók einnig gildi ný heildarreglugerð um vörumerki nr. 850/2020. Með lögunum var innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2436 á sviði vörumerkja en með henni hefur nálgun aðildarríkja Evrópusambandsins og EES/EFTA-ríkjanna varðandi málsmeðferð í vörumerkjamálum verið samræmd með mun ítarlegri hætti en áður.
Lög nr. 155/2002 um félagamerki voru á þessu tímamarki felld brott og ákvæði þeim tengd færð í vörumerkjalög, sem taka nú einnig til félaga- og ábyrgðar- og gæðamerkja. Slík merki eru í eðli sínu vörumerki og um þau gilda að meginstefnu til sömu ákvæði um málsmeðferð o.fl. og gilda um þau. Aukin áhersla er hins vegar en áður var á útfærslu og uppfærslu reglna um notkun þeirra.
Tegundir merkja
Merki má nú útfæra í umsókn með hvaða hætti sem er, svo fremi sem það er gert með skýrum, nákvæmum, heildstæðum, aðgengilegum, skiljanlegum, endingargóðum og hlutlausum hætti svo stjórnvöld, sem og almenningur geti gert sér grein fyrir skýru og nákvæmu inntaki þeirrar verndar sem eigandi fær með skráningu. Þessi viðmið eru ekki ný af nálinni, heldur komu þau fram í svonefndum Sieckmann-dómi Evrópudómstólsins frá árinu 2002, mál nr. C-273/00 og koma í stað þeirrar kröfu að merki sé sýnilegt. Ef útlit merkis krefst nánari skýringa er heimilt að leggja fram lýsingu með umsókn en það er ekki skylt nema merki sé af annarri tegund en reglugerðin tilgreinir. Lýsingin verður að varða merkið eingöngu og má ekki leiða til útvíkkunar á umfangi verndar.
Breytingar á málsmeðferð
Þeirri málsmeðferð sem áður gekk undir heitinu stjórnsýsluleg niðurfelling hefur nú til nánari aðgreiningar verið skipt í annars vegar ógildingu og hins vegar niðurfellingu. Grundvöllur kröfu og réttaráhrif hvorrar leiðar um sig eru mismunandi, ógilding leiðir til þess að litið er svo á að merki hafi aldrei verið til en niðurfelling leiðir til afnáms skráningar frátilteknum tímapunkti.
Verndartími merkja sem sótt er um 1. september 2020 og síðar er nú 10 ár frá umsóknardegi en ekki skráningardegi eins og verndartími eldri merkja. Fimm ára notkunarskylda mun nú miðast við endanlegan skráningardag og því fá þau merki sem sótt er um eftir lagabreytingu ekki úthlutað eiginlegum skráningardegi fyrr en að skráningarferli loknu. Endurnýjun eldri merkja helst óbreytt og miðar áfram við skráningardag.
Breytt viðmið 1. apríl 2021
Frá þeim tíma gilda ný viðmið við mat á svart/hvítum merkjum og grátóna og nálgunin „what you see is what you get“ tekin upp – þ.e.merki í svart/hvítu nær ekki yfir aðra liti en svart/hvíta. Þetta verður þó ekki afturvirkt og verða þau merki sem sótt verður um fram að breytingunni í svart/hvítu eða grátóna áfram túlkuð með sama hætti og verið hefur. Hugverkastofan fylgir í þessu sambandi þeim viðmiðum sem sett voru í samræmingarvinnu Evrópsku hugverkastofunnar (EUIPO) og birt þann 15. apríl 2014:CP4 – Common Communication on the Common Practice of the Scope of Protection of Black and White („B&W“) Marks.
Með umsóknum sem lagðar verða inn 1. apríl 2021 og síðar verður ennfremur heimilt að leggja fram vöru- og þjónustulista á ensku í stað íslensku.
Gæðavottun og gæðakerfi
Undanfarin ár hefur verið unnið að því hjá Hugverkastofunni að laga stjórnunarkerfið enn frekar að starfsemi stofnunarinnar og gera það aðgengilegra starfsfólki. Umbæturnar á árinu 2020 snúa aðallega að endurgerð gæðahandbókar Hugverkastofunnar og innleiðingu stjórnunarkerfisins í Microsoft Office 365.

Græn skref og loftslagsstefna Hugverkastofunnar
Á árinu var ákveðið að innleiða Græn skref, en með verkefninu leggur Hugverkastofan sitt af mörkum við að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna.
Verkefnið er unnið í fimm skrefum undir handleiðslu sérfræðinga Umhverfisstofnunar, en hvert skref inniheldur á bilinu 20-40 aðgerðir sem stofnanir þurfa að innleiða í sinn rekstur. Til að sinna verkefninu var skipað sérstakt umhverfisteymi og er stefnan sett á að ljúka skrefunum fyrir árslok 2021. Samhliða Grænu skrefunum verður unnið að gerð loftslagsstefnu, skv. lögum um loftslagsmál, sem ríkisstofnunum ber skylda til að setja sér.
Undir lok árs náði Hugverkastofan fyrsta skrefinu og fékk viðurkenningu á því frá Umhverfisstofnun.

Grænt bókhald
Heimsfaraldurinn hafði mikil áhrif á heildarlosun Hugverkastofunnar árið 2020, sem dróst saman um 85,7%. Skýringu á því má rekja til þess að fundir og námskeið erlendis voru haldin í formi fjarfunda. Á árinu var tekin ákvörðun um að kolefnisjafna allar þær flugferðir sem farnar eru á vegum stofnunarinnar og voru því 32 tré gróðursett í nafni Hugverkastofunnar fyrir árið 2020.
Pistlar
Tölfræði
Hugverkaskráningar í gildi á Íslandi í lok 2020
Skráð hugverk
í lok árs 2020
61.685
íslenskra aðila
8.895
íslenska aðila
960
íslenskra aðila
Árið 2020
(Umsóknir)
4.160
1.496
92
Árið 2020
(Veitt réttindi)
4.010
1.452
84
Íslenskum vörumerkjaumsóknum fjölgaði á árinu 2020 um 5,2% þrátt fyrir slæmt efnahagsástand í kjölfar COVID-19 faraldursins. Þá voru teknar 47% fleiri ákvarðanir um birtingu vörumerkja á árinu 2020 en árið 2019. Þetta kemur fram í nýrri tölfræði Hugverkastofunnar fyrir árið 2020.
Vörumerki
Þessar jákvæðu tölur eru vonandi merki um grósku í nýsköpun og markaðsstarfi hér á landi. Það vekur þó einnig athygli að á meðal íslenskra umsókna sem bárust á árinu var töluverður fjöldi eldri og rótgróinna vörumerkja sem verið er að skrá í fyrsta skipti. Er það vonandi merki um að fyrirtæki hafi nýtt umrótið á árinu til þess að rýna sín hugverkamál.
Ákvörðunum um birtingu vörumerkja fjölgaði mikið milli ára, eða um 47% (4.010 ákvarðanir árið 2020 samanborið við 2.727 árið 2019). Munar þar helst um mikla aukningu á fjölda birtinga alþjóðlegra vörumerkja en þeim fjölgaði um 73% milli ára.
Þessi mikla aukning kemur til vegna átaks í rannsókn vörumerkja sem hófst í byrjun árs. Hjá Hugverkastofunni voru rannsökuð um 4.300 vörumerki samanborið við 3.000 árið 2019. Mikil fjarvinna starfsmanna Hugverkastofunnar vegna COVID-19 faraldursins hafði engan veginn neikvæð áhrif á afköst í rannsókn, nema síður sé.
Endurnýjunum skráðra vörumerkja fjölgaði um 13,2% milli ára (3.282 endurnýjanir árið 2020 samanborið við 2.900 árið 2019). Var aukning í fjölda alþjóðlegra endurnýjana (10,4%), landsbundinna íslenskra (20%) og landsbundinna erlendra (17,3%).
*Með breytingum á vörumerkjalögum sem tóku gildi 1. september 2020 eru vörumerki nú birt til andmæla tveimur mánuðum áður en þau eru skráð. Því er í þessari yfirferð miðað við fjölda ákvarðana um birtingu vörumerkja til að gæta samræmis í framsetningu fyrir og eftir fyrrgreindar lagabreytingar.
Einkaleyfi
Heildarfjöldi landsbundinna einkaleyfa sem veitt voru hérlendis árið 2020 var sá sami og árið á undan. Fjögur landsbundin einkaleyfi voru veitt til íslenskra aðila og fimm til erlendra aðila.
Fjöldi íslenskra PCT umsókna jókst um 33% milli ára, en 24 slíkar umsóknir voru lagðar inn árið 2020 samanborið við 18 árið 2019. IS-PCT umsóknir eru alþjóðlegar PCT umsóknir sem lagðar eru inn á Íslandi þar sem umsækjandi er íslenskur.
Fjöldi staðfestra evrópskra einkaleyfa hjá Hugverkastofunni lækkaði lítillega árið 2020 miðað við árið á undan. Árið 2020 voru 1.443 evrópsk einkaleyfi staðfest hér á landi samanborið við 1.502 árið 2019, sem er samdráttur um 3,9%. Er það í fyrsta skipti frá því Ísland gerðist aðili að evrópska einkaleyfasamningnum sem fækkun verður á fjölda staðfestra einkaleyfa milli ára.
Hönnun
Fjöldi skráninga hönnunar dróst einnig saman á milli ára. Alls voru 84 hönnunarskráningar árið 2020 sem er samdráttur um 27,6%. Árið 2020 voru 75 alþjóðlegar skráningar hönnunar hjá Hugverkastofunni en áfram fækkar landsbundnum skráningum. Aðeins níu voru skráðar á árinu 2020.
Úrskurðir og ákvarðanir
Á árinu 2020 úrskurðaði Hugverkastofan í 7 andmælamálum og ákvarðaði í 11 málum um gildis kráningar. Hægt er að sjá úrskurði og ákvarðanir Hugverkastofunnar með því að smella hér.
Mannauður og rekstur
Lykiltölur úr rekstri 2020
Rekstur Hugverkastofunnar
Rekstrartekjur:
521.5 milljónir króna
Sértekjur:
11,6 milljónir króna
Rekstrarkostnaður:
515 milljónir króna
Starfsmenn
36
Meðalstarfsaldur
9
Meðalaldur
42
Starfsfólk Hugverkastofunnar
Árið 2020 var krefjandi fyrir allt starfsfólk og stjórnendur þar sem hefðbundin samskipti og samvera viku að miklu leyti fyrir fjarvinnu og rafrænum samskiptum. Það er áskorun að viðhalda samheldni og góðum liðsanda við slíkar aðstæður en starfsfólk lagði mikinn metnað í að viðhalda samskiptum í leik og starfi við breyttar kringumstæður. Fyrir utan hina fjölmörgu rafrænu fundi sem haldnir voru vegna starfsins stóð starfsfólk einnig fyrir annars konar rafrænum viðburðum eins og bingói, pub quiz, jólaskemmtun o.fl.
Fjöldi starfsfólks í lok árs 2020 var 36. Þar af var einn starfsmaður í fæðingarorlofi og einn starfsmaður starfaði hjá Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) sem sérfræðingur sem lánaður er til starfa. Starfsmannavelta var lítil, eða um 4%, og skýrist mestmegnis af ráðningu sumarstarfsfólks. Stöðugildi í lok árs 2020 voru 34,25.

Starfsfólk Hugverkastofunnar styrkir Ljósið
fagfólk aðstoðar viðað byggja upp líkamlegt og andlegt þrek, auk þess að fá stuðning við að setjasér markmið sem auka daglega virkni og hafa þannig áhrif á lífsgæði almennt.
Hægt er að leggja sitt af mörkum og styrkja Ljósið með því að smella hér.
