Hugverk og hugverkaréttindi

10
/10

Gómsæt hugverk

Nanna Helga Valfells

Þjónustustjóri

Í þróuðum löndum nútímans er matur ekki einungis hugsaður sem lífsnauðsynleg næring heldur eru matvæli orðin hluti af upplifunariðnaði þar sem fyrirtæki og framleiðendur keppa um hylli viðskiptavina sem gera sífellt meiri kröfur um gæði og rekjanleika. Á sama tíma eru vörumerki tengd mat og drykk auglýst sem aldrei fyrr á samfélagsmiðlum, þar sem svokallaðir áhrifavaldar fara í samstarf við þekkt vörumerki og veitingastaði sem hluti af markaðssetningu matvælanna.

Yfirkokkur á virtum og vinsælum veitingastað í Chicago, Alinea, fann upp aðferð til að búa til blöðru sem hægt er að borða. Blaðran sló í gegn hjá viðskiptavinum og á samfélagsmiðlum en ekki leið á löngu þar til aðrir veitingastaðir fóru að herma eftir. Þetta er því miður ekki eina dæmið um eftirlíkingu á uppskrift/uppfinningu tengdri matvælum. Hér á eftir fara nokkrir fróðleiksmolar um mikilvægi hugverka í matvælaiðnaði og leiðir til þess að vernda matvæli sem hugverk.  

Vörumerki  

Vörumerki eru notuð til að aðgreina vörur og þjónustu á markaði. Þau eru þess vegna viðskiptatæki til að halda utan um ímynd, orðspor og viðskiptavild fyrirtækja. Fyrirtækjum í matvælaiðnaði er mikilvægt að vernda vörumerki sín, hvort sem stefnan er að hasla sér völl á heimamarkaði eða alþjóðlega.  Vörumerkið getur upplýst neytandann frá hvaða framleiðanda hann er að kaupa og getur jafnframt verið vísbending um gæði vörunnar, en sterk vörumerki eru oft meðal verðmætustu eigna fyrirtækja. Sem dæmi um þekkt alþjóðleg vörumerki í matvælaiðnaði má nefna McDonald’s, Starbucks og Pepsi. Skráning vörumerkis gildir í 10 ár í senn, eftir það er hægt að sækja um endurnýjun á 10 ára fresti.  

Einkaleyfi  

Einkaleyfi veitir eiganda þess einkarétt á að hagnýta uppfinninguna sína í ákveðinn tíma, ýmist í eigin þágu eða með því að heimila öðrum nýtingu hennar. Einkaleyfi gefur forskot á samkeppnisaðila, auk þess sem það er eitt af því sem fjárfestar horfa til þegar þeir meta verðmæti hugmynda og fyrirtækja. Eitt af grunnskilyrðum einkaleyfis er að uppfinningin sé ný á heimsvísu, auk þess þarf hún að vera nægilega frábrugðin því sem þegar er þekkt, og hæf til framleiðslu. Þegar leitað er í Espacenet, gagnagrunni Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO) sem inniheldur milljónir einkaleyfa, þá kennir þar ýmissa grasa. Þegar leitað er eftir orðinu drykkur (e. beverage)  er þar að finna uppskriftir af t.d. kaffi þar sem beiskjan úr kaffinu er fjarlægð og uppskrift af koffínlausu tei sem er bragðbætt með einkaleyfavarinni efnafræðiformúlu. Þess má geta að til eru 773 einkaleyfi sem tengjast tyggjói (e. chewing gum). Skráð einkaleyfi gildir í 20 ár frá umsóknardegi.  

Hönnun  

Hönnun merkir útlit vöru eða hluta vöru sem ræðst af einstökum þáttum eða skreytingu hennar, einkum línum, útlínum, litum, lögun, gerð og/eða efni. Skráning hönnunar felst í einkarétti á að nota hönnunina, rétt til að banna öðrum að nota hana eða veita öðrum leyfi til að nota hana. Hönnunarskráning er verðmæt eignarréttindi og hagkvæm fjárfesting ef fyrirhuguð er alþjóðleg markaðssetning. Þegar kemur að matvælum er hönnun svissneska Toblerone súkkulaðisins sennilega sú þekktasta og um leið umtöluð, nú síðast þar sem framleiðandi í Bretlandi ætlaði árið 2016, í aðdraganda Brexit, að breikka bilið á milli súkkulaðibitanna og fara þar með úr 170 g pakkningum í 150 g. Þessi breyting hefur skapað umræður meðal sérfræðinga í hugverkarétti og aðdáenda súkkulaðisins þar í landi. Annað dæmi um skráða hönnun í matvælaiðnaði má nefna umbúðir utan um matvæli.  Með skráningu er hægt að vernda hönnun í allt að 25 ár, endurnýjun á 5 ára fresti, frá umsóknardegi.  

Viðskiptaleyndarmál  

Viðskiptaleyndarmál geta verið ýmiss konar upplýsingar sem eru verðmætar fyrirtækjum og vert er að halda leyndum. Upplýsingarnar geta varðað t.d. framleiðsluaðferðir, ferla og/eða uppskrift. Leyndarsamningar eru þá gjarnan notaðir sem skrifleg loforð aðila um að notfæra sér hvorki né veita öðrum upplýsingar um leyndarmálið. Þekkt er að fyrirtæki í matvælaiðnaði og veitingastaðir nota slíka samninga sem markaðstæki. Fræg viðskiptaleyndarmál á sviði matar og drykkjar sem nefna má eru uppskriftirnar af Coca-Cola, Dr. Pepper og KFC kjúklingabitunum. Sú staðreynd að þessar uppskriftir eru viðskiptaleyndarmál hefur verið hluti af ímynd og markaðssetningu þessara fyrirtækja svo áratugum skiptir.  

 

Afurðarheiti

Í dag eru yfir 2400 matvælaafurðir í Evrópu verndaðar út frá uppruna, landsvæði eða hefðbundinni sérstöðu. Árið 2014 voru lög þess efnis samþykkt hér á landi, en markmiðið er að veita afurðum sem uppfylla kröfur og skilyrði sem sett eru um slíkar vörur lagalega vernd, stuðla að aukinni neytendavernd og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti. Íslenska lambakjötið (e. Icelandic Lamb) er skráð sem afurðarheiti hér á landi ásamt íslensku lopapeysunni (e. Icelandic Lopapeysa). Ákvæði laga um afurðarheiti gilda einnig um erlend afurðarheiti sem hlotið hafa vernd samkvæmt lögunum eða á grundvelli þjóðarréttarsamninga. Í vernd afurðarheita felst að ekki er heimilt að nota afurðarheitið um vöru nema hún sé upprunnin á viðkomandi landsvæði og uppfylli tilteknar kröfur um framleiðslu og innihald. Dæmi um vernduð afurðaheiti eru Champagne frá Frakklandi, Parmigiano Reggiano frá Ítalíu, Jamon de Serón frá Spáni, Havarti frá Danmörku og Feta frá Grikklandi.  

Í þessari grein hefur verið farið yfir helstu leiðir og nokkur dæmi um verndun hugverka í matvælaiðnaði.  Tækninni fleygir fram en helstu matvælasérfræðingar halda því fram að framtíðin sé í þrívíddarprentuðum mat og að vélmenni muni í miklum mæli framleiða og framreiða matinn okkar. Þessar aðferðir margfalda framleiðni og eiga að minnka matarsóun til muna. Í nokkurn tíma hefur verið í bígerð að mögulegt verði að skrásetja lykt og bragð sem hugverk, en það hefur reynst nokkuð hug- og tæknilega flókið. Mun tæknin leyfa okkur að senda lykt og bragð stafrænt í framtíðinni? Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér, en eitt er víst að huga þarf að hugverkum í matvælaiðnaði, nú sem aldrei fyrr.  

Fyrri

Mýrardrekar, vatnalausir Lakers og vörumerki NBA

Næst

Hugverkaréttindi hafa jákvæð áhrif á íslenskt hagkerfi og atvinnusköpun samkvæmt nýrri skýrslu EUIPO og EPO