Pistlar

7
/9

Snjallvæðing hugverka – Fjórða iðnbyltingin og nýsköpun

Jón Gunnarsson

Samskiptastjóri

Í kringum okkur sjáum við ýmsa tækniþróun sem er þegar farin að hafa stórkostleg áhrif á samfélög, iðnað og efnahagskerfi heimsins. Fjórða iðnbyltingin mun umbylta störfum okkar, samgöngum og heilbrigðismálum og kollvarpa hugmyndum okkar um tækni, verðmæti nýsköpunar og neytendahegðun.

En hvaða tækifæri felast í þessari tæknibyltingu fyrir verðmætasköpun? Og hvaða áskoranir felast í þeim fyrir hugverkarétt?

Fjórða iðnbyltingin og nýsköpun

Undir þessa byltingu heyra t.d. nýjungar eins og hlutanetið (IoT), skýjakerfi, stórgögn (Big Data), 5G samskipti og gervigreind. Framtíð hagvaxtar og velsældar er að finna í nýsköpun, rannsókn og þróun. Þessi nýju tæknisvið gegna æ stærra hlutverki í því að finna lausnir á helstu vandamálum samtímans. Slíkt sjáum við hvergi betur en í því mikla vísindaafreki sem felst í því að búa til bóluefni gegn COVID-19 á innan við ári.

Tækni fjórðu iðnbyltingarinnar hefur skipt lykilmáli í þróun á bóluefni við COVID-19. Mynd: CDC


Búist er við því að þessi innspýting fjórðu iðnbyltingarinnar muni skapa tvær trilljónir evra aukalega fyrir hagkerfi ESB fyrir lok þessa áratugar. Það er því til mikils að vinna, bæði hvað varðar betri hagnýtingu auðlinda og ný verðmæti.


Hugverk og hugverkaréttur

Hugverkaréttindakerfið er í fararbroddi í þessari þróun. Ekki aðeins mun nýjasta tækni koma inn á borð hugverkastofa um heim allan, heldur munu ýmis ágreiningsmál um tækni tengda fjórðu iðnbyltingunni, t.d. um eignarhald hugverka, hafa mikil áhrif í iðnaði og verðmætasköpun framtíðarinnar. Jafnframt munu þessar breytingar hafa mikil áhrif á rannsókn og þróun um heim allan og að auki hafa bein áhrif á starfsemi hugverkastofa.


Hraði nýsköpunar á þessu sviði hefur aukist gríðarlega á síðustu árum. Á milli áranna 2010 og 2018 fjölgaði einkaleyfaumsóknum tengdum snjalltækni (e. smart connected objects) að meðaltali um 20% árlega á heimsvísu. Þetta er rúmlega fimmfalt meiri vöxtur samanborið við önnur tæknisvið á sama tímabili. Útlit er fyrir að þessi vöxtur muni aukast enn meira á næstu árum.


Hver á hugverkin … og verðmætin?

Hugverkaiðnaður stendur undir 15% gjaldeyristekna þjóðarbúsins, samkvæmt Samtökum iðnaðarins. Jafnframt standa íslensk fyrirtæki sem leggja mikið upp úr hugverkaréttindum undir 39,6% af vergri landsframleiðslu og skapa 29,2% af öllum störfum hér á landi, samkvæmt rannsókn Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) og Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO).

Listaverk gervigreindarinnar DeepDream. Hver á hugverk gervigreindar? Mynd: DeepDream


Hugverk og önnur óáþreifanleg verðmæti eru einmitt að verða æ stærri hluti verðmæta fyrirtækja í dag og hefur þessi þróun aukist gríðarlega síðustu áratugi. En þegar undirstaða verðmætasköpunar kemur úr hugsunum og nýsköpun manna, hvað gerum við þegar tölvur fara að sýna merki um getu til að hugsa og skapa hugverk án aðkomu manna? Þessi þróun er komin lengra en marga grunar. Nú þegar eru til gervigreindar-„tónskáld“ og „listafólk“ sem vinnur með, eða án, mannfólks. Hvað varðar uppfinningar, þá erum við þegar farin að kljást við spurninguna um einkaleyfi gervigreindar. Nýlega voru einmitt lagðar fram einkaleyfaumsóknir þar sem skráður „uppfinningamaður eða -kona“ var gervigreindarkerfið DABUS. Einkaleyfaumsóknunum var hafnað af EPO ásamt bandarísku einkaleyfa- og vörumerkjaskrifstofunni (USPTO) og bresku hugverkastofunni (UKIPO) á forsendum þess að uppfinningamaður eða -kona þurfi að vera mennsk(ur). Ákvörðun USPTO hefur verið áfrýjað og beðið er eftir endanlegum úrskurði, en ljóst er að er að frekari álitamál munu kvikna í tengslum við hugverkarétt og gervigreind á næstu árum eftir því sem gervigreindartæknin þróast.

Frá gervigreindarviðburði EPO. Stofnunin hefur lagt mikið í rannsóknir á umfangi gervigreindar og áhrifum hennar. Mynd: EPO


Hugverkastofur eru því að bregðast við. Á síðustu misserum hafa bæði EPO og Alþjóðahugverkastofnunin (WIPO) sett mikið púður í rannsóknir og kynningar á stöðu þessarar tækni ásamt þeim tækifærum og áskorunum sem framundan eru. Þó nokkrar stofur hafa einnig þegar hafið notkun á gervigreindartækni til að nýta stórgögn við rannsóknir á hugverkaumsóknum. Ljóst er að þróunin er mjög hröð þessa dagana – hver veit nema í nálægri framtíð verði einkaleyfa- og vörumerkjaumsóknir íslenskra aðila rannsakaðar af gervigreind?

Skýrsla EPO um einkaleyfi tengd fjórðuiðnbyltingunni

EPO og fjórða iðnbyltingin

WIPO og gervigreind

Gervigreindarsýning WIPO

Fyrri

Situr tíkin til borðs með mafíunni?

Næst

Kynjabil í hugverkaiðnaði er tap okkar allra