Pistlar

8
/9

Kynjabil í hugverkaiðnaði er tap okkar allra

Sandra Theódóra Árnadóttir

Lögfræðingur

Töluvert hefur hallað á hlut kvenna sem uppfinningamenn í einkaleyfaumsóknum síðustu áratugi. Þrátt fyrir að greina megi aukningu liggur ljóst fyrir að það hugvit sem konur kunna að búa yfir er vannýtt auðlind. Það er mikilvægt fyrir íslenskt samfélagað virkja aðkomu kvenna enn frekar að umsóknum um einkaleyfi og þar með skapa aukna hagsæld.

Einkaleyfi – hvati til sköpunar

Að baki öllum uppfinningum liggur sköpunarkraftur og hugvit og fáist einkaleyfi á uppfinningunni veitir það einkarétt á hagnýtingu hennar í ákveðinn tíma. Meginskilyrðið fyrir veitingu einkaleyfis, í grófum dráttum, er að uppfinningin verður að vera ný á heimsvísu á umsóknardegi og um skal að ræða tæknilega útfærslu sem er nægilega frábrugðin því sem þegar er þekkt. Það er engum blöðum um það að fletta að fyrir uppfinningamanninn getur einkaleyfi verið mikilvægur þáttur í möguleika hans á að hagnýta uppfinninguna í atvinnuskyni. Má því segja að einkaleyfi séu hvati til sköpunar fyrir sjálfan uppfinningamanninn og samfélagið í heild sinni nýtur í kjölfarið góðs af.

Upplýsingar sem gefnar eru í einkaleyfaumsóknum geta veitt innsýn í þennan heim sköpunarkrafts og hugvits. Í ljósi aukins vægis jafnréttismála og aðgerða undanfarinna ára í tengslum við jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði mætti ætla að hlutdeild kvenna sem uppfinningamenn í umsóknum um veitingu einkaleyfis sé á pari við karlkyns uppfinningamenn, eða hvað? Getur það verið að tilgreindir uppfinningamenn hérlendis séu upp til hópa karlkyns?


Kvenkyns uppfinningamenn aðeins 12% á árinu 2020

Séu landsbundnar einkaleyfaumsóknir skoðaðar ásamt þeim evrópsku einkaleyfum sem tekið hafa gildi hér á landi á tímabilinu 2000-2020 og í þeim tilvikum þegar nafn/nöfn íslenskra uppfinningamanna eru gefin upp, þá kemur í ljós að hlutdeild íslenskra kvenna sem tilgreindir uppfinningamenn í einkaleyfaumsóknum hefur farið vaxandi. Á tímabilinu 2001-2010 stóðu að meðaltali 8,4% kvenkyns uppfinningamenn að baki einkaleyfaumsóknum. Á tímabilinu 2011-2020 var hlutdeild kvenkyns uppfinningamanna orðin 12,3% og má því greina 3,9% aukningu á milli tímabila. Á síðastliðnu ári voru 12% uppfinningamanna kvenkyns. Því er ljóst að það er enn langur vegur að jöfnun kynjanna í þessu tilliti.

Konur líklegri til að vera eini uppfinningamaðurinn eða í teymi með karlmönnum

Í ljósi þess að margir uppfinningamenn geta staðið að baki einni einkaleyfaumsókn getur reynst áhugavert að skoða samsetningu kynjanna þegar um er að ræða einn uppfinningamann annars vegar og svo teymi uppfinningamanna hins vegar. Sé litið til tímabilsins 2000-2020 kemur í ljós að konur eru líklegastar til þess að standa að baki umsókn um einkaleyfi þegar um er að ræða blandað teymi uppfinningamanna, þ.e. teymi sem samanstendur af bæði konum og körlum. Þá er áhugavert að sjá að á tímabilinu var aðeins að finna eitt teymi uppfinningakvenna. Draga má þá ályktun að konur eru fremur líklegri til þess að vera eini uppfinningamaðurinn en að vera í teymi uppfinningakvenna, en mest líklegar til þess að vera í teymi með hinu kyninu.

Kynjabilið minnkar hægt á alþjóðavísu

Samkvæmt nýlegum tölum frá Alþjóðahugverkastofunni (WIPO) voru aðeins 16,5% kvenkyns uppfinningamenn í alþjóðlegum einkaleyfaumsóknum á árinu 2020. Um er að ræða 3,8% aukningu á tíu árum. Miðað við þróunina gerir WIPO ráð fyrir að jöfnun kynjanna verði náð árið 2058. Þykir lágt hlutfall kvenna vera áhyggjuefni og bendir til þess að hugvit og sköpunarkraftur kvenna sé vannýtt auðlind.

Mikilvægt að virkja sköpunarkraft og hugvit allra

Það kunna að vera ýmsar skýringar á því að svo fáar konur eru meðal uppfinningamanna í einkaleyfaumsóknum og raun ber vitni. Í því samhengi hefur verið bent á að ástæðan kunni m.a. að vera sú að færri konur samanborið við karla sinna störfum í tengslum við hinar svokölluðu STEM fræðigreinar (vísindi, tækni, verkfræði og stærðfræði). En slík störf leiða gjarnan af sér uppfinningar sem kunna að vera einkaleyfishæfar. Þá hefur félagslegi þátturinn einnig verið nefndur í þessu sambandi, þ.e. konur eru líklegri til þess að stíga til hliðar og hugsa um heimilið og börnin en karlar. Enn fremur er það vitað að kvenkyns vísindamenn og verkfræðingar eru ólíklegri en karlkyns samstarfsfélagar til þess að hugsa fyrir hagnýtingu uppfinningarinnar í atvinnuskyni og finnst jafnvel óþægilegt að markaðssetja sjálfan sig og vinnu sína gagnvart mögulegum fjárfestum.

Það er ekki síður í þágu samfélagsins í heild að umgjörðin um einkaleyfin virki sem skyldi og sé til þess fallin að virkja sköpunarkraft og hugvit allra, sama hvaða kyn um ræðir. Ljóst er að það er tap okkar allra að það hugvit sem konur kunna að búa yfir sé vannýtt líkt og raunin sýnir.  

Þeim sem vilja sækja sér frekari fróðleik um málefnið er bent á greiningu bresku hugverkastofunnar (UKIPO) á uppfinningasemi (e. inventorship) kvenna.

Fyrri

Snjallvæðing hugverka – Fjórða iðnbyltingin og nýsköpun

Næst

Tæknisvið einkaleyfa – lykillinn að IPC-flokkunarkerfinu