Ársskýrsla
2021

Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar

Ávarp forstjóra

Hugverkastofan í 30 ár

Árið 2021 fagnaði Hugverkastofan merkum tímamótum en stofnuninni var ýtt úr vör undir heitinu Einkaleyfastofan þann 1. júlí 1991. Saga Hugverkastofunnar er samofin sögu nýsköpunar og breytinga í iðnaði hér á landi síðustu 30 ár. Á þessum tíma hefur umfang hugverka og hugverkaréttinda aukist til muna. Það er ekki aðeins að þakka aðild Íslands að ýmsum mikilvægum alþjóðlegum samningum heldur einnig aukinni áherslu stjórnvalda á nýsköpun og þróun iðnaðar. Í dag er öflugur hugverkaiðnaður undirstaða verðmæta-sköpunar og velsældar á Íslandi.

Þegar litið er um öxl yfir sögu Einkaleyfastofunnar og Hugverkastofunnar má sjá að íslenskur iðnaður, samfélag og viðskiptalíf hefur gerbreyst. Nýsköpun skiptir nú lykilmáli í því hvernig við lifum, störfum og sköpum verðmæti og störf. Hlutverk hugverka og hugverkaréttinda í þessu ferli er skýrt: Hugverk eru grunnurinn að því hvernig hugmynd verður að veruleika. Með hugverkum skapast virði sem nauðsynlegt er að verja og því eru vernduð hugverk í raun gjaldmiðill árangursríkrar nýsköpunar.
Lesa meira

Starfsemi og hlutverk

Nýtt skipurit

Endurskoðuð stefna Hugverkastofunnar tók gildi 1. maí 2021 og gildir stefnan út árið 2022. Samhliða endurskoðaðri stefnu tók gildi nýtt skipurit sem var meðal annars ætlað að skerpa betur á hlutverkum sviða.

Í stefnunni er rík áhersla lögð á áframhaldandi uppbyggingu á skilvirkri og notendamiðaðri þjónustu og leika þróun á stafrænum lausnum og upplýsingamiðlun því lykilhlutverk í stefnumiðum og helstu verkefnum á komandi misserum.  

Áfram verður lögð áhersla á að styrkja ásýnd og auka vitund um hugverkaréttindi. Enn fremur leggjum við okkur fram við að skapa góðan vinnustað samhliða því að stuðla að stöndugum og umhverfisvænum rekstri.

Breytingar á skipulagi og skipuriti styðja með gagnsæjum hætti við markmið endurskoðaðrar stefnu og er ætlað að styrkja starfsemi stofnunarinnar jafnt inn á við sem út á við. Þá verður aukin áhersla lögð á flæði upplýsinga og þekkingar með innleiðingu á fjölbreyttri teymisvinnu.

Hugverkasvið

Hugverkaréttindi eru nauðsynleg til að ýta undir sköpunargáfu og hvetja til nýsköpunar. Á hugverkasviði fer fram formleg og efnisleg meðferð umsókna um skráningu vörumerkja, einkaleyfa og hönnunar. Á sviðinu eru teknar ákvarðanir um skráningu eða höfnun eftir atvikum og sinna lögfræðingar sviðsins rökstuðningi þegar umsóknum er hafnað. Leyst er úr andmæla- og niðurfellingarmálum á sviðinu, auk þess sem beiðnum um endurveitingu réttinda er sinnt.

Rekstrarsvið

Rekstrarsvið annast öll þau verkefni sem snúa að umsýslu mannauðs, fjármálum og rekstri auk þess að hafa umsjón með rekstri upplýsingatæknikerfa og skjalastjórn. Umsýsla gæðamála heyrir nú jafnframt undir Rekstrarsvið en starfsfólk sviðsins vinnur einnig að fjölmörgum öðrum verkefnum innan stofnunarinnar. Þar má nefna umsjón með alþjóðlegum samstarfsverkefnum og samningum við alþjóðastofnanir auk þátttöku í ýmiss konar teymisvinnu.

Þjónustusvið

Nýtt kjarnasvið þjónustu tók til starfa 1. maí 2021. Hlutverk þess er að styðja við innleiðingu á endurskoðaðri stefnu. Á nýju þjónustusviði fer meðal annars fram formleg meðhöndlun umsókna og erinda, útgáfa Hugverkatíðinda, ábyrgð á heimasíðu og önnur ytri þjónusta. Þá tekur sviðið á móti umsóknum um viðhald réttinda, þ.e. greiðslu árgjalda af einkaleyfum og endurnýjun hönnunar-og vörumerkjaskráninga, auk þess að sinna beiðnum um aðilaskipti, veðsetningu skráninga og fleira.

Skrifstofa forstjóra

Á skrifstofu forstjóra starfa, auk forstjóra, yfirlögfræðingur, samskiptastjóri og stafrænn leiðtogi. Skrifstofan fer meðal annars með sameiginleg verkefni Hugverkastofunnar, en einnig hefur hún yfirumsjón með lögfræðilegum málefnum, innri og ytri samskiptum, stafrænni þróun og innleiðingu á stefnu. Á skrifstofu forstjóra er einnig unnið sjálfstætt að tilteknum verkefnum eða málaflokkum í samvinnu við forstjóra eða sviðsstjóra.

Lagaleg málefni

Breytingar á löggjöf á árinu

Lög um einkaleyfi nr. 17/1991 (ell.) tóku breytingum á árinu með lögum nr. 57/2021 sem innleiddu svonefnda SPC-undanþágu (e. SPC waiver). Samkvæmt 65.gr. a. ell. er nú heimilt að veita undanþágu til þriðju aðila frá þeirri vernd sem efni/lyf njóta með útgáfu viðbótarvottorðs (SPC) til framleiðslu á og/eða til framkvæmdar á nauðsynlegum aðgerðum til framleiðslu á efni/lyfi sem ætlað er til útflutnings út fyrir Evrópska efnahagssvæðið. Einnig getur undanþágan varðað framleiðslu til geymslu á slíkum efnum/lyfjum vegna markaðssetningar hér á landi eftir að viðbótarvernd rennur út.

Breytingin byggir á reglugerð ESB nr. 933/2019, sem breytti reglugerð ESB um vottorð um viðbótarvernd fyrir lyf nr. 469/2009 og bíður innleiðingar í EES-samninginn. Reglugerð til nánari útfærslu á því til hvaða aðgerða framleiðendur þurfa að grípa til þess að nýta sér undanþáguna og umsýslu Hugverkastofunnar er væntanleg á árinu 2022.

Árlega er auglýsing um flokkun vöru og þjónustu uppfærð í samræmi við þær breytingar sem eiga sér stað á yfirskriftum flokka samkvæmt NICE-samningnum. Auglýsing frá 1. janúar 2021 fól í sér smávægilegar breytingar á yfirskrift flokka 35 og 36.

Aðrar lagabreytingar sem geta varðað málsmeðferð Hugverkastofunnar að einhverju leyti voru m.a. lögfesting nýrra laga um íslensk landshöfuðlén nr. 54/2021. Í 12. gr. laganna er tekið sérstaklega fram að rétthafi léns beri ábyrgð á því að notkun hans á léni skerði ekki réttindi annarra, þ.m.t. hugverkaréttindi. Hugverkastofan sendi inn umsögn um frumvarpið á meðan það var til meðferðar.

Engar umfangsmiklar breytingar urðu á alþjóðlegu regluverki á árinu sem hafa áhrif á starfsemi Hugverkastofunnar. Breytingar á Madrid Protocol, PCT- og Hague-reglum sem samþykktar voru á Allsherjarþingi WIPO haustið 2021 eru aðgengilegar á vefsíðu WIPO en þær vörðuðu einkum tilnefningu og skráningu á umboðsmönnum í Madrid-ferlinu, kirnaraðir (e. sequence listings) og þýðingar í PCT-ferlinu, sem og fresti, birtingu og forgangsréttarkröfur í alþjóðlegu hönnunarferli. Flestar breytingar taka gildi á árinu 2022, aðrar síðar.

Fríverslunarsamningur Evrópusambandsins og Bretlands eftir BREXIT tók gildi á árinu og unnið var að sambærilegum samningi EFTA og Bretlands sem gert er ráð fyrir að taki gildi á árinu 2022. BREXIT hafði þau áhrif að alþjóðlegar umsóknir íslenskra aðila sem tilnefndu Evrópusambandið héldu ekki sjálfkrafa gildi í Bretlandi. Þeir notendur sem höfðu tilnefnt Evrópusambandið í alþjóðlegum umsóknum voru upplýstir um þá stöðu. BREXIT hefur þau áhrif að umboðsmenn með starfsemi í Bretlandi falla hvorki undir ákvæði 35. gr. laga um vörumerki né sambærileg ákvæði einkaleyfa- og hönnunarlaga. Ekki er því gert ráð fyrir að breskir umboðsmenn geti komið fram fyrir hönd umsækjenda hér á landi nema þeir hafi verið tilnefndir fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
Lesa meira

Innlent samstarf

Hugverkastofan leggur mikla áherslu á að eiga gott samstarf við innlenda hagsmunaaðila til að auka þekkingu á hugverkaréttindum, bæta þjónustu við viðskiptavini og stuðla að aukinni og bættri notkun hugverkaréttinda á Íslandi. Stofnunin hefur því í gegnum árin efnt til margvíslegs samstarfs við aðila í iðnaði, menntun, rannsóknum, nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi hér á landi, enda er hugverk víða að finna. Ber þar m.a. að nefna Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Samtök iðnaðarins, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Klak (áður Icelandic Startups).
Hugverkastofan á einnig í samtali við umboðsmenn hugverkaréttinda á sviði iðnaðar. Hún fundar reglulega með Félagi umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa (FUVE) og Félagi einkaleyfasérfræðinga (FEIS) til að miðla upplýsingum og tryggja að stofnunin veiti viðskiptavinum bestu þjónustu sem völ er á.

Erlent samstarf

Hugverkastofan á í miklu alþjóðlegu samstarfi til að tryggja virka miðlun upplýsinga, reynslu og þekkingar á milli einkaleyfa- og hugverkastofa í Evrópu. Slík þróun verður sífellt mikilvægari á tímum heimsvæðingar þar sem viðskipti, iðnaður og rannsóknar- og þróunarstarf eru í auknum mæli alþjóðleg.

Þessi vinna fer að miklu leyti fram á vettvangi Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO) en Hugverkastofan tekur virkan þátt í stjórnun stofnunarinnar sem fulltrúi eins af 38 aðildarríkjum hennar. Forstjóri Hugverkastofunnar var endurkjörinn varaformaður framkvæmdaráðs EPO til þriggja ára í desember 2021. Enn fremur er Hugverkastofan þátttakandi í margs konar tæknilegum og lögfræðilegum verkefnum sem öll miða að því að gera upplýsingar um einkaleyfi og umsóknir aðgengilegri fyrir notendur á heimsvísu og samræma túlkun aðildarríkjanna á sambærilegri löggjöf.
Þá taka starfsmenn stofnunarinnar þátt í fundum og námskeiðum á vegum Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) sem Ísland er aðili að.Hugverkastofan á einnig í viðamiklu samstarfi á vettvangi Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO), Nordic Patent Institute (NPI) og Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), auk samstarfs á milli einkaleyfa- og hugverkastofa Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna.






Stefna Hugverkastofunnar

Þann 1. maí 2021 tók gildi endurskoðuð stefna Hugverkastofunnar til ársloka 2022. Þar eru nefnd fimm stefnumið sem tilgreina áherslur stofnunarinnar.

Styrkja ásýnd Hugverkastofunnar og auka vitund um hugverkaréttindi
Forsenda þess að fyrirtæki geti verndað og hagnýtt hugverkin sín er að þau hafi nauðsynlega þekkingu á hugverkaréttindum. Áhersla er því lögð á að styrkja ásýnd Hugverkastofunnar og auka vitund um hugverkaréttindi hér á landi. Hugverkastofan er því virkur þátttakandi í samtali um hugverkarétt í samfélaginu auk þess að eiga í fjölbreyttu samstarfi við hagsmunaaðila stofnunarinnar, t.d. með því að taka skipuleggja og taka þátt í viðburðum og vinnustofum. Á árinu 2021 var Hugverkastofan einn af samstarfsaðilum Nýsköpunarvikunnar. Þar var haldin málstofa um mikilvægi hugverkaréttinda fyrir fjárfestingar í nýsköpun í samstarfi við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Einnig var Hugverkastofan með svokallaða „pop-up“ skrifstofu í Grósku þar sem frumkvöðlum bauðst að sækja sér ráðgjöf. Hugverkastofan var einnig með vinnustofu í hinum ýmsu nýsköpunarhröðlum og hakkaþonum á árinu. Má þar nefna Startup Supernova, Hringiðu, Ullarþon og Masterclass Auðnu um nýsköpun í líf- og heilsutækni. Síðustu ár hefur Hugverkastofan einnig verið samstarfsaðili Gulleggsins og veitt þátttakendum nauðsynlega fræðslu og þekkingu um hugverkaréttindi.
Byggja upp skilvirka og notendamiðaða þjónustu
Rík áhersla er lögð á áframhaldandi uppbyggingu á skilvirkri og notendamiðaðri þjónustu og leikur því þróun á stafrænum lausnum lykilhlutverk í stefnumiðum Hugverkastofunnar og helstu verkefnum. Mikilvægur liður í þessari vinnu eru bætt samskipti og upplýsingamiðlun til viðskiptavina auk þróunar nýrrar heimasíðu og stafrænna umsóknarferla.
Efla þekkingu starfsmanna og miðla henni innan sem utan stofnunarinnar
Með endurbættri stefnu er lögð rík áhersla á það að miðla þeirri þekkingu sem starfsmenn Hugverkastofunnar búa yfir, jafnt inn á við sem út á við. Til þess var nýtt teymi sett á laggirnar – Þekkingarbrunnur. Teymið hefur það hlutverk að leiða þjálfun og endurmenntun starfsmanna, jafnt um þau málefnasvið sem stofnunin ber ábyrgð á, sem og um tengd málefni og þá löggjöf sem stofnuninni ber að starfa eftir.

Fræðsla undir formerkjum Þekkingarbrunns er ýmist í formi fyrirlestra eða styttri námskeiða sem starfsmenn stofnunarinnar hafa umsjón með. Einnig eru fengnir gestafyrirlesarar þegar svo ber undir. Þá hafa verið lögð drög að sérhæfðum vinnustofum, sem í fyrstu munu tengjast móttöku og meðhöndlun vörumerkjaumsókna og rannsókn á skráningarhæfi merkja.
Skapa dýnamískan vinnustað sem laðar fram það besta í öllum
Nýju skipulagi Hugverkastofunnar er ætlað að styðja við uppfærða stefnu stofnunarinnar og styrkja vinnustaðarmenningu. Liður í þeim breytingum er aukin samvinna milli sviða, meðal annars með áherslu á teymisvinnu.

Hugverkastofan hefur samþykkt og innleitt jafnréttisáætlun og jafnlaunastefnu sem ætlað er að tryggja starfsfólki stofnunarinnar jöfn tækifæri og jafna stöðu og rétt allra kynja. Stefnan byggir einnig á mannauðsstefnu Hugverkastofunnar og gildunum fagmennska, þekking og traust.

Heimild hefur einnig fengist fyrir endurbættu húsnæði undir Hugverkastofuna sem mun styrkja vinnustaðinn enn frekar.
Stuðla að stöndugum og umhverfisvænum rekstri
Áhersla er lögð á að stuðla að stöndugum og umhverfisvænum rekstri. Hugverkastofan kláraði þrjú Græn skref á árinu en það er Umhverfisstofnun sem heldur utan um verkefnið fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna.

Samkvæmt lögum um loftslagsmál ber ríkisstofnunum að setja sér loftslagsstefnu og lykilþáttur til að fylgja henni eftir er að stofnanir haldi utan um sérstakt Grænt bókhald. Með bókhaldinu getur Hugverkastofan meðal annars fylgst með losun gróðurhúsalofttegunda sem stafar frá starfseminni.

Árið 2021 losaði Hugverkastofan 3,36 tonn af koltvísýringi sem er 38% minna en árið áður. Skýringu á þessum mikla samdrætti má rekja til þess að fundir og námskeið erlendis voru haldin í formi fjarfunda vegna heimsfaraldursins.

Á árinu var tekin ákvörðun um að kolefnisjafna allan rekstur Hugverkastofunnar og því voru 40 tré gróðursett í nafni Hugverkastofunnar vegna losunar á árinu 2021.
Lesa meira

Stafræn þróun

Árlega berast Hugverkastofunni yfir 20 þúsund erindi af ýmsum toga. Þar af eru nýjar umsóknir ríflega 5 þúsund en hin erindin varða flest einhver þeirra ríflega 70 þúsund hugverkaréttinda sem eru skráð hjá stofnuninni. Á allra síðustu árum hefur sú breyting orðið að langflest þessara erinda berast stofnuninni með stafrænum hætti. Hugverkastofan var því tæknilega vel í stakk búin að takast á við þær áskoranir sem heimurinn stóð frammi fyrir snemma árs 2020 þegar heimsfaraldurinn skall á af fullum þunga og öll þjónusta var flutt úr raunheimum nær fyrirvaralaust.

Við endurskoðun stefnu stofnunarinnar í ársbyrjun 2021 var ákveðið að setja frekari stafræna þróun í forgang og er markmiðið nú að stofnunin geti veitt alla þjónustu með stafrænum hætti. Ýmis stór skref hafa verið tekin á allra síðustu árum til að svo geti orðið. Meðal annars hafa gagnagrunnar stofnunarinnar verið nútímavæddir og öflugar vefþjónustur byggðar ofan á þá til að svara fyrirspurnum og taka á móti upplýsingum. Á fyrri hluta ársins 2021 var verkefnið Stafræn Hugverkastofa sett af stað. Verkefnið er tvíþætt og snýr annars vegar að ytri þjónustu og hins vegar innra verklagi.
Ytri þjónusta
Vinna við nýjan vef Hugverkastofunnar er nú á lokametrum. Vefurinn verður anddyri að allri þjónustu stofnunarinnar. Hann á að vera einfaldur og aðgengilegur og beina viðskiptavinum í rétta átt með skjótum hætti. Vefurinn á að vera sveigjanlegur og snjalltækjavænn. Hann á jafnframt að vera sveigjanlegur gagnvart viðbótum, svo sem nýjum tæknilausnum á borð við spjallmenni og bjóða upp á að birta sjálfvirk gögn, t.d. tölfræði, með beinum tengingum
við gagnagrunna stofnunarinnar.

Á nýjum vef verða öflugar leitarvélar þar sem hægt er að skoða umsóknir og skráð réttindi hjá stofnuninni. Þar verður jafnframt hægt að leggja inn allar tegundir umsókna og erinda með stafrænum hætti og greiða umsóknar- og þjónustugjöld. Á vefnum verða mínar síður fyrir notendur og aðgangur að þeim skjölum sem varða umsóknir og erindi, þ.m.t. umsóknargögn, skráningarskírteini, vottorð og höfnunar- og rökstuðningsbréf.
Innri þróun
Samhliða vinnu við nýjan vef hefur töluverð vinna átt sér stað við frekari stafræna innri þróun. Nú þegar hafa verið stigin skref í átt að aukinni sjálfvirkni, sérstaklega í tengslum við innhellingu upplýsinga frá EPO og WIPO hvað varðar evrópsk einkaleyfi og umsóknir um alþjóðleg vörumerki. Framundan er frekari greiningarvinna þar sem markmiðið er að finna þau handtök þar sem tæknin getur leyst mannshöndina af hólmi. Í allri þeirri vinnu er þjónusta við viðskiptavini í forgrunni, þar á meðal auknir möguleikar á sjálfsþjónustu.

30 ára afmæli Hugverkastofunnar

Stutt ágrip

Hugverkastofan fagnaði 30 ára afmæli á árinu 2021. Þann 1. júlí 1991 tók Hugverkastofan, sem þá gekk undir nafninu Einkaleyfastofan, til starfa. Í gegnum tíðina hefur stofnunin tekið miklum breytingum í takt við aukið mikilvægi hugverkaréttinda í iðnaði, viðskiptum og nýsköpun. Á opnunarári Einkaleyfastofunnar voru um 1.000 vörumerki skráð hér á landi en til samanburðar voru um það bil 4.000 vörumerki skráð á árinu 2021. Í dag eru rúmlega 61 þúsund vörumerki í gildi hér á landi og rúmlega 9.200 einkaleyfi.
Það var viðeigandi að í Morgunblaðinu þann 11. júlí 1991 skyldi birtast frétt um opnun Einkaleyfastofunnar undir fyrirsögninni: „Þjónusta við iðnaðinn efld með einkaleyfastofu,“ þar sem hlutverk okkar og áhersla hefur einmitt alltaf verið að þjónusta íslenskan iðnað og nýsköpun með þarfir viðskiptavinarins að leiðarljósi. Þrír forstjórar hafa leitt stofnunina í gegnum árin. Gunnar Guttormsson gegndi embætti forstjóra til ársins 2001 en þá var Ásta Valdimarsdóttir skipuð forstjóri. Núverandi forstjóri Hugverkastofunnar, Borghildur Erlingsdóttir, hefur gegnt embættinu frá árinu 2010.

Afmælisráðstefna Hugverkastofunnar: Verndun hugverka getur skipt lykilmáli í þróun grænna tæknilausna

Verndun og hagnýting hugverka er nauðsynlegur hluti af nýsköpun á sviði grænnar tækni og geta þannig verið mikilvægur liður í framlagi Íslands til að takast á við umhverfisáskoranir nútímans. Þetta kom meðal annars fram á 30 ára afmælisráðstefnu Hugverkastofunnar, IP and sustainability: Innovation for a brighter future, sem haldin var í Hörpu fimmtudaginn 4. nóvember.
Kynnir var höfundurinn og framtíðarfræðingurinn Bergur Ebbi en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti opnunarerindi ráðstefnunnar þar sem hún talaði meðal annars um þróun iðnaðar á Íslandi á síðustu þremur áratugum. Hér á landi er að byggjast upp ný tegund iðnaðar sem leggur aukna áherslu á nýsköpun og hugverk. Katrín sagði að á þessum tíma hefði Hugverkastofan hjálpað íslenskum aðilum að vernda og hámarka sína nýsköpun. Þannig hefði Hugverkastofan átt hlut í því að byggja upp öflugt nýsköpunarumhverfi sem er einn af grundvöllum hagsældar hér á landi.
Í ávarpi sínu nefndi forsætisráðherra einnig að nýsköpun á sviði grænnar tækni sem byggist á hugverkaréttindum gæti verið mikilvægasta framlag Íslands í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þrátt fyrir smæð Íslands og umfang áskorunarinnar sem heimurinn stendur frammi fyrir gæfu íslenskar tæknilausnir, t.d. þær sem komu fram á ráðstefnunni, ástæðu til bjartsýni.
Í ræðu sinni nefndi Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar, að á 30 árum hefði stofnunin þróast í takt við stórkostlegar breytingar í íslensku viðskiptalífi, iðnaði og samfélagi. Líkt og þær sviptingar í alþjóðastjórnmálum sem heimurinn stóð frammi fyrir þegar stofnunin tók til starfa árið 1991 stæði heimurinn nú frammi fyrir nýrri hnattrænni áskorun í formi loftslagsbreytinga. Nýjar íslenskar tæknilausnir væru hins vegar á sjóndeildarhringnum sem gæfu von um að minnka umfang koltvíoxíðs í andrúmsloftinu og skapa á sama tíma aðstæður fyrir sjálfbærari matvælaframleiðslu og skilvirkari leið til að skipuleggja samfélag okkar. Verndun hugverkaréttinda skipti lykilmáli í að koma slíkum lausnum í framkvæmd enda væru þau undirstaða fjárfestinga og samstarfs á sviði nýsköpunar.
Á ráðstefnunni voru enn fremur erindi frá forstjórum og forseta þriggja alþjóðastofnana á sviði hugverkaréttinda. Daren Tang, forstjóri Alþjóðahugverkastofunnar (WIPO), flutti erindi frá Genf í Sviss, António Campinos, forseti Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO), flutti erindi frá München í Þýskalandi, og Christian Archambeau, forstjóri Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO), flutti erindi frá Alicante.

Hugverkaréttindi og náttúruauðlindir

Mörg af helstu nýsköpunarfyrirtækjum Íslands á sviði grænnar tækni fluttu erindi á ráðstefnunni. Bergur Sigfússon, yfirmaður CO2 föngunar og niðurdælingar hjá Carbfix, fór yfir ævintýralegan árangur fyrirtækisins. Nýlega var vígð stærsta heildstæða lofthreinsi- og förgunarstöð heims skammt frá Hellisheiðarvirkjun. Fyrirtækið hefur byggt upp sterkan grunn á hugverkaréttindum og stefnir á áframhaldandi uppbyggingu á því sviði.
Í erindi sínu fór Egill Tómasson, nýsköpunarstjóri hjá Landsvirkjun, yfir breyttar áherslur fyrirtækisins. Með aukinni áherslu á nýsköpun og samstarf hefur mikilvægi hugverkaréttinda aukist töluvert og munu þau spila stórt hlutverk í framtíðaráætlunum fyrirtækisins.
Ómar Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Carbon Recycling International, ræddi í erindi sínu hvernig rétt verndun og hagnýting hugverka hefði gert fyrirtækinu kleift að taka þátt í verðmætum samstarfsverkefnum á sviði kolefnisendur-vinnslu á síðustu árum. Útflutningur  á hugverkaréttindavörðu hugviti geti þannig verið mikilvægasta framlag Íslands í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Nýsköpun fyrir bjartari framtíð

Í erindi sínu fór Birta Kristín Helgadóttir, verkefnastjóri Green by Iceland, yfir það hvernig íslenskt hugvit og tækni geta skipt sköpum þegar kemur að því að standa undir sjálfbærnimarkmiðum í kjölfar COP26 loftslagsráðstefnunnar í Glasgow. Hugverkaréttindi væru mikilvæg til að stuðla að fjárfestingum og samstarfi á sviði nýsköpunar.
Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hjá Samtökum iðnaðarins, fór í erindi sínu yfir þróun íslensks iðnaðar á síðastliðnum árum úr því að vera auðlindadrifinn í það að vera hugverkadrifinn. Á síðustu árum hefur hugverkaiðnaður orðið ein helsta stoð íslenska hagkerfisins. Slíkt getur ekki aðeins stuðlað að aukinni verðmætasköpun og efnahagslegum stöðugleika hér á landi, heldur einnig verið grundvöllur fyrir grænni nýsköpun sem getur nýst um heim allan.

Heilsa, matvælaframleiðsla og hugverk

Fyrirtækið Controlant hefur vakið mikla athygli upp á síðkastið fyrir tæknilausn sína við dreifingu COVID-19 bóluefnis Pfizer um allan heim. Guðmundur Reynaldsson, hugverkastjóri Controlant, sagði í erindi sínu að hagnýting einkaleyfa væri mikilvægur hluti af framtíðaráætlunum fyrirtækisins enda væri hún nauðsynleg fyrir áframhaldandi fjárfestingu í rannsóknar- og þróunarstarfsemi Controlant. Hagnýting einkaleyfa væri einnig mikilvægur liður í því að koma í veg fyrir brot á hugverkaréttindum annarra.
Dr. Björn Örvar, einn stofnenda ORF líftækni, fór í erindi sínu yfir nýjustu afurð fyrirtækisins, MESOkine, sem er próteinhvati ræktaður í erfðabreyttu byggi. Ef áætlanir ORF ganga eftir mun MESOkine spila lykilhlutverk í því að gera ræktað kjöt aðgengilegra á heimsvísu en slíkt skilur eftir sig aðeins brot af vistspori hefðbundins kjöts. ORF beitir samþættri notkun einkaleyfa, vörumerkja og viðskiptaleyndarmála til að þróa tæknilausn sína og koma henni í framkvæmd.
Í erindi sínu fór Ari Ingimundarson, rekstrarstjóri VAXA Iceland, yfir metnaðarfullar áætlanir fyrirtækisins á næstu árum og hlutverk hugverkaréttinda í þeim. Fyrirtækið framleiðir smáþörunga til mann- og dýraeldis með byltingarkenndri nýrri aðferð sem skilur eftir sig umtalsvert minna vistspor en hefðbundin matvæla-framleiðsla. Fyrirtækið hefur sótt um fleiri en 20 einkaleyfi á framleiðsluaðferð sinni og tæknilausnum, en verndun hugverka skiptir fyrirtækið miklu máli í fjárfestingum og sjálfbærri nýsköpun.

Pallborðsumræður

Að lokum stýrði Ásta Valdimarsdóttir, ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins og fyrrum forstjóri Einkaleyfastofunnar, pallborðsumræðum með Sigríði Mogensen, Ara Ingimundarsyni, Einari Mäntylä framkvæmdastjóra Auðnu Tæknitorgs og Huld Magnúsdóttur framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Ólíkt restinni af ráðstefnunni fóru pallborðsumræðurnar fram á íslensku. Þar kom meðal annars fram að hugverk og hugverkavernd væru oft lykillinn að fjármögnun vísindaverkefna og að aukin vernd hugverka gæti hjálpað slíkum verkefnum að fjármagna sig þrátt fyrir að enn væri verið að þróa tæknilausnina. Einnig var rætt um aukna áherslu á nýsköpun hér á landi og að mögulega hefði aldrei verið meira fjármagn lagt í málaflokkinn en um þessi misseri.
Einnig var rætt um samkeppnisforskot í grænni orku og hvernig orkuiðnaðurinn hafi ekki nýtt sér hugverkaréttindi og þá sérstaklega einkaleyfi í nægilega miklum mæli síðustu ár. Samkvæmt Einari Mäntylä hafa Íslendingar sem starfa á þessu sviði ekki farið vel með þekkingu sína síðustu ár og einungis selt hana í formi klukkustunda í vinnu ráðgjafa en ekki í gegnum hugverkavarðar tæknilausnir. Þegar skoðaðar eru áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir í ljósi COP26 loftslags-ráðstefnunnar í Glasgow getur framlag Íslands verið í gegnum hugvit. Með því að huga rétt að hugverkamálum gætu íslenskar tæknilausnir haft alþjóðleg áhrif.

Mikilvægt er einnig að virkja bæði einkageirann og hið opinbera. Samkvæmt Ara Ingimundarsyni þurfa hugverkamál að vera á hreinu til að virkja einkafjármagn. Samtímis verði að huga að réttum hvötum í opinberri fjármögnun á rannsóknum og þróun með því að skilyrða hana við nýsköpun sem er vernduð og með framleiðslu og fyrirtæki á bakvið sig.

Að lokum var rætt hvernig aðkomu stjórnvalda að fjármögnun í nýsköpun hér á landi ætti að vera háttað. Þar nefndi Sigríður Mogensen að slík fjármögnun og hvatar til nýsköpunar væru fjárfesting til framtíðar. Því ætti slík fjármögnun, hvort sem það væri í gegnum Tækniþróunarsjóð eða endurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar, að fara í verkefni sem eru skalanleg, vernduð með hugverkum og huga að því að sækja á erlenda markaði til að auka útflutningstekjur þjóðarbúsins. Á endanum snúist nýsköpun um hvaða verðmætasköpun verði til en slíkt muni drífa framtíðarhagvöxt og aukin lífskjör til framtíðar.
Öll erindi er hægt að nálgast á streymissíðu okkar með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.
https://ipandsustainability.velkomin.is/is
Talk Innovation hlaðvarp Evrópsku einkaleyfastofunnar: Rock CO2, roll back climate change (á ensku) Hvernig getur tækniþróun snúið við loftlagsbreytingum? Íslenskir vísindamenn eiga í samstarfi víða um heim og nota jarðfræðiþekkingu sína til að tækla stærstu áskorun mannkyns. María Kristjánsdóttir, hugverkaréttindalögfræðingur, og Bergur Sigfússon, yfirmaður CO2 föngunar og niðurdælingu hjá Carbfix, ræddu kolefnisföngun og hvernig hugverkaréttindi geta verið undirstaða samstarfsverkefna á sviði grænnar tækni.

Hlaðvarp Auðnu Tæknitorgs: Hugverkaréttur með Sigríði Mogensen og Jóni GunnarssyniÍ 15. þætti Auðvarps Auðnu Tæknitorgs var farið yfir málefni hugverkaréttar og afmælisráðstefnu Hugverkastofunnar ásamt Jóni Gunnarssyni, samskiptastjóra Hugverkastofunnar, og Sigríði Mogensen, sviðsstjóra hjá Samtökum Iðnaðarins. Hvernig er hugverkaréttur lykillinn að samkeppnisforskoti og almennt betra lífi hér á landi?
Lesa meira

Pistlar

Jón Gunnarsson

Framtíð í hugverkadrifnu hagkerfi

Í nýrri skýrslu OECD um íslenskan efnahag kemur fram að margt megi bæta til að efla nýsköpuná Íslandi. Með aukinni vitund íslenskra fyrirtækja um vernd og hagnýtingu hugverka getur Ísland stuðlað að sjálfbærum hagvexti og aukinni verðmætasköpun til framtíðar.
Lesa meira
Pétur Vilhjálmsson

Hljóðmerki

Vörumerki eru allt í kringum okkur. Þau eru margs konar tákn sem fólk og fyrirtæki í atvinnustarfsemi nota til auðkenna vörur sínar og þjónustu og auðvelda þannig neytendum að kaupa aftur það sem ánægja var með. Sterk vörumerki bora sér leið inn í undirmeðvitund neytenda og skapa þar sterkar tilfinningar. Markmið eigenda slíkra merkja er að tilfinningarnar séu jákvæðar.
Lesa meira
Jón Gunnarsson, Einar Mäntylä,
Auðnu Tæknitorgs

Sýnum verðmætasköpun í hugverki!

Fyrirtæki sem vernda hugverk sín eru verðmætari og borga hærri laun og þau eru betur í stakk búin til að ná árangri í nýsköpun. Hugverk eru í dag helstu og mikilvægustu verðmæti fyrirtækja og eru forsenda þess að þau nái árangri. Hvað þýðir það fyrir nýsköpun og verðmætasköpun á Íslandi?
Lesa meira
Árni Halldórsson

Hugverkaréttur í tölvuleikjaiðnaðinum

Tölvuleikjaiðnaðurinn er vaxandi grein og tölvuleikir í auknum mæli að slá við öðrum afþreyingarmiðlum. Samkvæmt skýrslu greiningarfyrirtækisins Newzoo er áætlað að fjöldi tölvuleikjaspilaraárið 2021 hafi verið um þrír milljarðar sem er rúmlega þriðji hver jarðarbúi. Því kemur ekki á óvart að um er að ræða gríðarlega verðmæta- og atvinnuskapandi iðnað sem veltir milljörðum.
Lesa meira

Hvað er líkt með vörumerki og vörumerki?

Fyrirtæki sem vernda sín vörumerki borga 19% hærri laun og skapa 20%meiri tekjur en þau sem gera það ekki. Vörumerki eru óefnisleg eign og umfang þeirra, sem hlutfall af heildarverðmæti fyrirtækja, hefur aukist gríðarlega undanfarin ár. Það er því ljóst að það eru mikil tækifæri í verðmætasköpun með faglegri uppbyggingu vörumerkja.
Lesa meira

Tölfræði

Hugverkaskráningar í gildi á Íslandi í lok 2021

Vörumerki
Einkaleyfi
Hönnun

Skráð hugverk
í lok árs 2021

61.200

Þar af 7.500 í eigu
íslenskra aðila

9.255

Þar af 87 í eigu
íslenska aðila

1.376

Þar af 122 í eigu
íslenskra aðila

Árið 2021
(Umsóknir)

4.284

↑ 7%

1.449

↓ 7%

184

↑ 53%

Árið 2021
(Veitt réttindi)

2.651

↓ 34%

1.420

↓2%

141

↑ 18%

Vörumerkjaumsóknum hér á landi fjölgaði um tæp 7% á árinu 2021. Einkaleyfisumsóknum íslenskra aðila fækkaði hins vegar um 23%.

Heildarfjöldi vörumerkjaumsókna sem barst Hugverkastofunni var 7% meiri árið 2021 en árið 2020.
688 landsbundnar vörumerkjaumsóknir frá íslenskum aðilum bárust Hugverkastofunni á árinu 2021.  Það er aukning um 2% frá fyrra ári.
Heildarfjöldi ákvarðana um birtingu vörumerkja* lækkaði um 33% á milli ára.
Landsbundnum einkaleyfaumsóknum fækkaði um 26% á milli ára og IS-PCT alþjóðlegum umsóknum íslenskra aðila fækkaði um 52%.
Landsbundnum hönnunarskráningum hér á landi fjölgar heldur á milli ára.
*Með breytingum á vörumerkjalögum sem tóku gildi 1. september 2020 eru vörumerki nú birt til andmæla tveimur mánuðum áður en þau eru skráð. Því er í þessari yfirferð miðað við fjölda ákvarðana um birtingu vörumerkja til að gæta samræmis í framsetningu fyrir og eftir fyrrgreindar lagabreytingar.

Vörumerki

Heildarfjöldi vörumerkjaumsókna jókst um tæp 7% milli ára eða úr 4.021 umsóknum árið 2020 í 4.284 umsóknir árið 2021. Munaði þar helst um 11% fjölgun á alþjóðlegum umsóknum; árið 2021 barst Hugverkastofunni 3.019 alþjóðleg vörumerkjaumsókn samanborið við 2.714 umsóknir árið 2020. Landsbundnum umsóknum erlendra aðila fækkaði um 9% milli ára (úr 634 árið 2021 í 577  árið 2021). Fjöldi landsbundinna vörumerkjaumsókna frá íslenskum aðilum heldur áfram að aukast milli ára. 688 umsóknir bárust Hugverkastofunni árið 2021 samanborið við 673 árið 2020 sem er aukning um 2%. Er þetta sérstaklega áhugavert í ljósi neikvæðra efnahagslegra áhrifa af COVID-19 faraldrinum, en slíkum umsóknum fjölgaði um 5% á árinu 2020.

Ákvörðunum um birtingu vörumerkja fækkaði töluvert milli ára, eða um 33%. Hugverkastofan tók 2.651 ákvörðun um birtingu árið 2021, samanborið við 4.023 árið 2020. Munar þar helst um birtingar alþjóðlegra vörumerkja en þeim fækkaði um 45 % milli ára. Endurnýjunum skráðra vörumerkja fækkaði um 5% milli ára (3.133 endurnýjanir árið 2021 samanborið við 3.287 árið 2020). Fækkun var bæði í fjölda alþjóðlegra endurnýjana (1%), landsbundinna endurnýjana íslenskra aðila (8%) og landsbundinna endurnýjana erlendra aðila (12%).

*Með breytingum á vörumerkjalögum sem tóku gildi 1. september 2020 eru vörumerki nú birt til andmæla tveimur mánuðum áður en þau eru skráð. Því er í þessari yfirferð miðað við fjölda ákvarðana um birtingu vörumerkja til að gæta samræmis í framsetningu fyrir og eftir fyrrgreindar lagabreytingar.




Einkaleyfi

Landsbundnum einkaleyfisumsóknum fækkaði um 26% milli ára. Einungis tvær landsbundnar einkaleyfisumsóknir erlendra aðila barst Hugverkastofunni á árinu og á sama tíma fækkaði landsbundnum einkaleyfisumsóknum íslenskra aðila úr 44 árið 2020 í 34 árið 2021, eða um 23%.

Heildarfjöldi landsbundinna einkaleyfa sem veitt voru hérlendis árið 2021 lækkaði úr níu árið 2020 í sjö árið 2021. Fjögur landsbundin einkaleyfi voru veitt til íslenskra aðila árið 2021 og þrjú til erlendra aðila.

Íslenskum PCT umsóknum fækkaði um 52% milli ára, en 12 slíkar umsóknir voru lagðar inn árið 2021 samanborið við 25 árið 2020 sem var metár. IS-PCT umsóknir eru alþjóðlegar PCT umsóknir sem lagðar eru inn á Íslandi þar sem umsækjandi er íslenskur.

Staðfestum evrópskum einkaleyfum hjá Hugverkastofunni fækkaði lítillega árið 2021 miðað við árið á undan. Árið 2021 voru 1.413 evrópsk einkaleyfi staðfest hér á landi samanborið við 1.445 árið 2020, sem er samdráttur um 2%. Er það í annað skipti frá því að Ísland gerðist aðili að evrópska einkaleyfasamningnum sem fækkun verður á fjölda staðfestra einkaleyfa milli ára, en þeim fækkaði einnig árið 2020.

Hönnun

Umsóknum um skráningu hönnunar fjölgaði mikið á milli ára. 184 umsóknir um skráningu hönnunar bárust Hugverkastofunni árið 2021 samanborið við 120 árið 2020 sem er aukning um 53% milli ára.   Munaði þar helst um mikla aukningu í fjölda landsbundinna umsókna frá erlendum aðilum, en 79 slíkar umsóknir bárust Hugverkastofunni árið 2021 samanborið við aðeins fjórar árið 2020. Fjöldi landsbundinna umsókna íslenskra aðila um skráningu hönnunar stóð í stað, en sjö slíkar umsóknir bárust árið 2021. Alþjóðlegum umsóknum um skráningu hönnunar fækkaði hinsvegar um 10% milli ára; 98 slíkar umsóknir bárust árið 2021 samanborið við 109 árið 2020.

Úrskurðir og ákvarðanir

Á árinu 2021 úrskurðaði Hugverkastofan í 14 andmælamálum og ákvarðaði í 16 málum um gildi skráningar. Hægt er að sjá úrskurði og ákvarðanir Hugverkastofunnar með því að smella hér.

Mannauður og rekstur

Hjá Hugverkastofunni starfar fjölbreyttur hópur starfsfólks með ólíkan bakgrunn, meðal annars í sálfræði, viðskiptafræði,
lögfræði, stjórnmálafræði, stjórnsýslufræði, verkfræði, tölvunarfræði, kennslu, mannfræði, tannsmíði og verkefnastjórnun.

Í árslok 2021 störfuðu 37 starfsmenn á Hugverkastofunni, 26 konur og 11 karlar. Mikið barnalán hefur leikið við starfsmannahópinn en alls fóru sjö starfsmenn í lengra eða styttra fæðingarorlof á árinu. Einn starfsmaður starfaði hjá Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) sem sérfræðingur lánaður til starfa og einn starfsmaður var ráðinn í sumarstarf í gegnum átak Vinnumálastofnunar um sumarstörf fyrir námsmenn.

Stella, starfsmannafélag Hugverkastofunnar, stóð fyrir nokkrum viðburðum á árinu þrátt fyrir ýmsar takmarkanir. Hæst ber að nefna flúðasiglingu niður Hvítá sem farin var á einum góðviðrisdegi í september.

Jafnlaunastefna og jafnréttisáætlun

Hugverkastofan leggur áherslu á jafnan rétt kynjanna til launa, stöðuveitinga og starfa. Allt starfsfólk óháð kyni skal njóta jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf þannig að enginn ómálefnalegur launamunur sé til staðar.
Starfsfólk Hugverkastofunnar skal jafnframt njóta sömu tækifæra, réttinda og starfsaðstæðna óháð kynþætti, þjóðerni, trúarbrögðum, litarhætti, efnahag, ætterni og öðrum ómálefnalegum þáttum, eftir því sem við á.

Rekstur

Rekstrarform Hugverkastofunnar er A-hluta form og er fjárheimild stofnunarinnar ákvörðuð á fjárlögum hvers árs án þess að til komi framlag úr ríkissjóði. Reksturinn er fjármagnaður með þjónustugjöldum frá þeim sem kosið hafa að vernda hugverk sín hér á landi, bæði innlendum og erlendum aðilum. Reksturinn er því mjög frábrugðinn rekstri annarra ríkisstofnana en umsvif stofnunarinnar ráðast af fjölda umsókna og erinda sem koma til meðferðar hjá stofnuninni hverju sinni. Ýmsir utanaðkomandi þættir geta svo haft áhrif á fjölda umsókna, svo sem gengisþróun og aðstæður í efnahagsmálum hér á landi og á alþjóðavísu.

Rekstur Hugverkastofunnar gekk nokkuð vel á árinu þrátt fyrir áhrif vegna heimsfaraldurs. Fjárheimild stofnunarinnar var 571,5 m.kr. en reksturinn er sem fyrr segir með öllu fjármagnaður með þjónustugjöldum. Tekjur voru nokkuð undir áætlun en heildartekjur voru alls 527,9 m.kr. sem er um 2,5% minna en árið 2020. Mestu munar um tekjur vegna alþjóðlegra vörumerkjaumsókna sem voru nokkuð undir áætlun. Tekjurnar skiptust þannig að mestar voru tekjur vegna vörumerkja eða 62% af heildartekjum, þar á eftir voru tekjur vegna einkaleyfa 37% og tekjur vegna hönnunar voru 1%. Sértekjur Hugverkastofunnar voru 12,6 m.kr. sem skýrast af endurgreiðslum frá alþjóðastofnunum fyrir útlögðum kostnaði vegna samstarfsverkefna, ferðakostnaði og launakostnaðar sérfræðings í starfi hjá EUIPO.  
Útgjöld voru nokkuð lægri en gert var ráð fyrir í áætlunum og skýrist það einkum af því að ekki var ráðist í viðhaldsframkvæmdir á fasteigninni á Engjateigi 3, sem og lægri ferða- og starfsmannakostnaði. Heildarútgjöld námu 527,9 m.kr. og var stærsti einstaki útgjaldaliðurinn launakostnaður eða 76%.

Rekstrartekjur:

515.3 milljónir króna

Sértekjur:

12,6 milljónir króna

Rekstrarkostnaður:

527,9 milljónir króna

Starfsmenn

37

manns

Meðalstarfsaldur

9

ár

Meðalaldur

42

ára