Pistlar

2
/9

Four Seasons, vörumerki og ruglingshætta

Jón Gunnarsson

Samskiptastjóri

Fyrstu dagar nóvembermánaðar voru viðburðaríkir í bandarískum stjórnmálum. Á sama tíma og flestir fjölmiðlar lýstu yfir sigri Joe Biden í forsetakosningum þar vestra fór fram blaðamannafundur í Fíladelfíu sem hefur vakið mikla athygli. Ruglingur á milli vörumerkja tveggja „Four Seasons“ er talinn hafa verið ástæðan fyrir einum skrautlegasta og umtalaðasta blaðamannafundi í manna minnum.

Þegar Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti að lögfræðingar hans myndu halda blaðamannafund á „Four Seasons Landscaping“ ráku margir upp stór augu, sérstaklega eftir að Four Seasons hótelið í Fíladelfíu tilkynnti að fundurinn yrði ekki haldinn hjá þeim eða á neinum vettvangi sem tengist þeim. Þegar fjölmiðlar skoðuðu málið nánar kom í ljós að fundurinn yrði þess í stað haldinn á lóð garðyrkjufyrirtækis með sama nafni sem er staðsett í iðnaðarhverfi borgarinnar við hliðina á erótískri bókabúð.

Flestir telja að ástæðan fyrir þessum mistökum sé að lögfræðiteymi Trump sem skipulagði fundinn hafi ruglast á vörumerkjum Four Seasons hótelsins og garðyrkjufyrirtækis með sama nafni og bókað það síðarnefnda fyrir fundinn. Tilgangur vörumerkja er einmitt að aðgreina vöru og þjónustu á markaði en rétt notkun þeirra ætti að koma í veg fyrir misskilning sem þennan. Vörumerki halda utan um viðskiptavild, orðspor og ímynd fyrirtækja og eru því oft verðmætustu eignir þeirra. Þess vegna fæst vörumerki ekki skráð á Íslandi ef talin er hætta á ruglingi hjá hinum almenna neytanda, þ.e.a.s. ef vörumerkið er talið of líkt öðru vörumerki sem skráð er fyrir svipaða vöru og þjónustu.

Ruglingshætta liggur einmitt í hættunni á að fólk telji sama aðilann vera á bakvið tvö ótengd vörumerki. Það þýðir þó ekki að ekki sé hægt að skrá sama orðmerkið oftar en einu sinni. Orðmerki getur verið notað af tveim (eða fleiri) aðilum og fengist skráð sé varan eða þjónustan það ólík að lítil hætta sé talin á að neytandi rugli þeim saman. Sem dæmi má nefna orðmerkið „Thule“ sem er skráð hér á landi af ölgerð, barnavagnaframleiðanda og fjárfestingasjóði. Litlar líkur eru taldar á að neytendur telji að ölgerð sé að framleiða barnavagna eða aðfjárfestingasjóður sé að selja bjór o.s.frv. og því geta þessi vörumerki öll fengist skráð.

Hér á landi hefur vörumerki Four Seasons hótelsins verið skráð frá árinu 1991 en enn sem komið er hefur ekki bólað á umsókn frá garðyrkjufyrirtækinu með sama nafni. Yrði slík umsókn lögð inn þyrfti t.d. að kanna hvort vörumerkið sé nægjanlega ólíkt öðrum merkjum sem þegar eru skráð hér á landi fyrir sambærilega vöru eða þjónustu.

Í vörumerkjadeilum erlendis hefur stundum verið vísað í lagalegt próf, „Moron in a hurry“, þar sem fullyrðingu um ruglingshættu milli vörumerkja er hafnað á þeim forsendum að aðeins „fáviti á hlaupum“ eigi á hættu að ruglast á þeim. Hvort það hafi gerst í þessu tilfelli er ekki hægt að segja, en svo virðist sem Four Seasons hótelið og garðyrkjuþjónustan hafi bæði rekið starfsemi í Fíladelfíu síðan 1992 án ruglings af þessu tagi hingað til.  

Fyrri

Um fimmtungur íslenskra einkaleyfisumsókna tengist sjávarútvegi

Næst

Alþjóðahugverkadagurinn 2020: Græn hugverk eru auðlind