Ávarp forstjóra

Heimsbyggðin öll hefur staðið frammi fyrir áður óþekktri áskorun síðastliðið ár vegna heimsfaraldurs og hafa allir þurft að laga sig að gerbreyttum aðstæðum. Starfsemi og þjónusta Hugverkastofunnar er þar ekki undanskilin og á mjög skömmum tíma voru allar þjónustuleiðir stofnunarinnar komnar á rafrænt form og flestir starfsmenn í fjarvinnu. Starfsfólk stofnunarinnar á mikið lof skilið fyrir sveigjanleika, aðlögunarhæfni, þolinmæði og þrautseigju á þessum óvissutímum og tímum umbreytinga.

Við höfum lært mikið á stuttum tíma og sumar breytingar munu án efa skila sér í bættu og breyttu verklagi og betri vinnustað þegar heimurinn og vinnustaðurinn komast í eðlilegt horf. Reynsla okkar mun vonandi einnig skila sér í bættri þjónustu og upplýsingagjöf til frambúðar.

Í mótlæti skapast hins vegar fjölmörg tækifæri. Þrátt fyrir óvissu er ánægjulegt að sjá hve margir íslenskir aðilar hafa nýtt umrótið til þess að blása til sóknar og leggja áherslu á nýsköpun til þess að komast yfir þennan hjalla. Á sama tíma hafa áherslur og fjárfestingar stjórnvalda í nýsköpun verið ánægjuefni. Árangurinn sést ekki aðeins í þeim fjölmörgu nýsköpunarhugmyndum og frumkvöðlum sem hlotið hafa verðskuldaða athygli, hann sést einnig skýrt í tölfræði okkar frá árinu. Það er afar jákvætt að verða vitni að aukningu í vörumerkja- og einkaleyfaumsóknum frá íslenskum aðilum. Fjöldi umsókna er oft talinn vera mælikvarði á stöðu nýsköpunar og markaðsstarfs hér á landi og því er jákvætt að sjá þessa grósku hjá íslenskum fyrirtækjum á erfiðum tímum. Það er vonandi vísbending um að íslenskir aðilar nái sterkri stöðu fljótt og örugglega að heimsfaraldri loknum. Tölfræðin sýnir okkur þó að eins og fyrri ár eru erlendir aðilar stærsti hópur viðskiptavina Hugverkastofunnar. Það á við um allar þær umsóknir og réttindi sem öðlast gildi hér á landi á hverju ári.

Fjarvinna og nýting tækni til vinnu og fjarfunda var ein umfangsmesta breytingin í starfsemi Hugverkastofunnar á árinu 2020. Það skilaði sér þó frekar í meiri afköstum en minni og alls varð 47% aukning í ákvörðunum um birtingu vörumerkja á árinu. Þá tók þann 1. september síðastliðinn gildi breyting á lögum um vörumerki, sem hafði ekki síður mikil áhrif á verklag og starfsemi innan stofnunarinnar. Með nýjum ákvæðum vörumerkjalaga eykst samræmi milli vörumerkjalöggjafar á Íslandi og annars staðar á ESS-svæðinu, íslenskum fyrirtækjum til hagsbóta. Einnig skapast ný og spennandi tækifæri til verndunar vörumerkja, en með gildistöku laganna er nú hægt að skrá nýjar tegundir vörumerkja eins og hljóð-, hreyfi- og margmiðlunarmerki.

Á þessum krefjandi tímum fyrir fyrirtæki og atvinnulíf er viðeigandi að þema alþjóðahugverkadagsins 2021 sé „Hugverk og lítil og meðalstór fyrirtæki: Að koma hugmyndinni á markað“. Hugverkaréttindi eru ekki síður mikilvæg fyrir minni fyrirtæki en þau stærri. Nýleg skýrsla Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) gefur til að mynda til kynna að lítil og meðalstór fyrirtæki sem vernda hugverk sín skili hærri tekjum, greiði hærri laun og séu líklegri til að ná hröðum vexti. Það hefur því aldrei verið mikilvægara en nú að auka vitund og fræðslu um hugverkaréttindi og þau tækifæri sem þeim fylgja fyrir fyrirtæki og frumkvöðla.

Hugverkastofan tók þá ákvörðun í lok árs 2020 að hefja nýtt ár á rýni á stefnu stofnunarinnar. Í stefnumiðum Hugverkastofunnar verður áfram lögð rík áhersla á skilvirka og notendavæna þjónustu, m.a. í formi stafrænna umbreytinga. Þá verður áfram lögð áhersla á að efla vitund og auka ásýnd stofnunarinnar, sem og á að miðla þekkingu og málefnum hugverkaréttinda bæði innan og utan stofnunarinnar. Stöndugur og umhverfisvænn rekstur verður áfram í forgrunni og eins og ávallt er stefnt að því að Hugverkastofan sé til fyrirmyndar þegar litið er til starfsánægju.

Við leggjum ríka áherslu á að þjónusta okkar sé í samræmi við þarfir viðskiptavina og að hún sé aðgengileg hvar og hvenær sem er. Því mun Hugverkastofan halda áfram að leggja sérstaka áherslu á stafrænar umbætur og lausnir í sinni þjónustu, viðskiptavinum okkar til hagsbóta. Við munum einnig leggja okkur fram um að minnka umhverfisfótspor stofnunarinnar, en áfangi á þeirri vegferð var viðurkenning frá Umhverfisstofnun fyrir að hafa stigið fyrstu Grænu skrefin.

Þrátt fyrir stafrænar lausnir og eflingu rafrænna og stafrænna þjónustuleiða gefur Hugverkastofan áfram kost á þeirri þjónustu að bóka ráðgjöf á starfsstöð stofnunarinnar. Mikilvægi mannlegra samskipta þarf alltaf að hafa í huga og meta til gagns, sérstaklega á sama tíma og vöxtur er í stafrænum þjónustuleiðum.

Við blásum til sóknar þar sem framundan er mikil vinna við að endurreisa íslenskt efnahagslíf og skapa aukin verðmæti og atvinnu hér á landi. Við sjáum okkar hlutverk í þessu ferli í skýru ljósi þar sem nýsköpun og hugverkaréttindi gegna lykilhlutverki í því að endurreisa hagkerfi um heim allan, skapa ný verðmæti og störf og búa til betri heim.
Aftur heim
Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri