Árið    2021

Hugverkastofan stígur fyrsta Græna skrefið

Hugverkastofan hlaut á árinu 2021 viðurkenningu fyrir að hafa stigið fyrsta Græna skrefið. Viðurkenningarskjalið var formlega afhent á rafrænum fundi með fulltrúa Umhverfisstofnunar og starfsfólki Hugverkastofunnar.

Umhverfisstofnun heldur utan um verkefnið sem er ætlað að aðstoða stofnanir við að efla umhverfisstarf sitt. Með þátttöku í Grænum skrefum gefst stofnunum færi á að innleiða öflugt umhverfisstarf með kerfisbundnum hætti undir handleiðslu sérfræðinga. Verkefninu er skipt upp í fimm skref og felur hvert skref í sér á bilinu 20 til 40 aðgerðir sem þarf að innleiða í rekstur Hugverkastofunnar. Veitt er viðurkenning frá Umhverfisstofnun fyrir hvert skref sem lokið er við.

Þátttaka Hugverkastofunnar í Grænum skrefum er í samræmi við stefnu stofnunarinnar fyrir árin 2018-2021 en þar er lögð sérstök áhersla á að „starfsemi Hugverkastofunnar hafi sem minnst áhrif á umhverfið“.

Frekari upplýsingar má finna í frétt á heimasíðu Grænna skrefa.

EPO og EUIPO:

Ný skýrsla sýnir fram á efnahagslegan ávinning fyrirtækja af verndun hugverka

Fyrirtæki sem vernda hugverk sín skapa að meðaltali 20% hærri tekjur á hvern starfsmann en fyrirtæki sem gera það ekki. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO) og Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) sem kom út í febrúar 2021. Jafnframt kemur fram að fyrirtæki sem eiga að minnsta kosti eitt einkaleyfi, skráð vörumerki eða skráða hönnun borga að meðaltali 19% hærri laun en önnur fyrirtæki.

Skýrslan, „Intellectual property rights and firm performance in the EU“, sýnir fram á sterka og jákvæða fylgni á milli hugverkaeignar fyrirtækja og efnahagslegrar frammistöðu þeirra. Þegar skoðaðar eru ólíkar tegundir hugverkaréttinda kemur fram að sterkasta fylgnin er hjá fyrirtækjum sem eiga einkaleyfi. Þau eru með að meðaltali 36% hærri tekjur á hvern starfsmann og greiða 53% hærri laun samanborið við fyrirtæki sem eiga engin skráð hugverk.

Rannsókn EPO og EUIPO sýnir enn frekar fram á mikilvægi hugverkaverndar fyrir hagkerfi og iðnað. Sameiginleg rannsókn EPO og EUIPO frá árinu 2019 sýndi fram á mikil efnahagsleg umsvif og atvinnusköpun íslenskra fyrirtækja sem vernda hugverkin sín. Önnur skýrsla EPO og EUIPO, sem einnig var birt árið 2019, sýndi jafnframt fram á að lítil og meðalstór fyrirtæki sem eiga skráð einkaleyfi, vörumerki eða hönnun væru líklegri til að ná miklum vexti í veltu. Þegar þessar rannsóknir eru teknar saman koma sterkar vísbendingar um tengsl á milli verndunar hugverka og efnahagslegrar frammistöðu, bæði þjóðhagslega og hjá einstökum fyrirtækjum.

WIPO:

Alþjóðlegum einkaleyfaumsóknum
fjölgar þrátt fyrir COVID-19

Alþjóðlegum PCT einkaleyfaumsóknum sem lagðar voru inn hjá Alþjóðahugverkastofunni (WIPO) fjölgaði árið 2020 þrátt fyrir slæmt efnahagsástand í kjölfar COVID-19 faraldursins. Flestar umsóknir komu frá Kína og Bandaríkjunum.

Fjöldi alþjóðlegra einkaleyfaumsókna sem lagðar eru inn í gegnum alþjóðlega samstarfssamninginn um einkaleyfi (e. Patent Cooperation Treaty - PCT)  er oft notaður sem mælikvarði á nýsköpun. Það er því áhugavert að sjá að umsóknum fjölgaði um 4% milli ára, sem er metfjöldi, þrátt fyrir að verg landsframleiðsla drægist saman um 3,5% á sama tímabili á heimsvísu.

Líkt og í fyrra voru flestar PCT umsóknir frá Kína (68.720 umsóknir, +16,1% milli ára) en þar á eftir komu Bandaríkin (59.230 umsóknir, +3% milli ára), Japan (50.520 umsóknir, -4,1% milli ára), Suður-Kórea (20.060 umsóknir, +5,2% milli ára) og Þýskaland (18.643 umsóknir, -3,7% milli ára).

Kínverski tæknirisinn Huawei var það fyrirtæki sem átti flestar PCT umsóknir árið 2020 og heldur toppsæti sínu frá því í fyrra með 5.464 umsóknir. Þar á eftir koma Samsung (Suður-Kórea) með 3.093 umsóknir, Mitsubishi (Japan) með 2.810 umsóknir og LG (Suður-Kórea) með 2.759 umsóknir.

Alþjóðlegum vörumerkjaumsóknum fækkaði lítillega milli ára. Þetta var að einhverju leyti viðbúið þar sem vörumerkjaumsóknir endurspegla nýjar vörur og þjónustur sem settar eru á markað en þær hafa dregist saman í heimsfaraldri COVID-19. Alþjóðlegum vörumerkjaumsóknum sem lagðar voru inn í gegnum Madrid kerfið fækkaði um 0,6% árið 2020. Það er í fyrsta skiptið sem þeim fækkar milli ára frá efnahagshruninu 2008 til 2009.
Slæmt efnahagsástand hafði töluverð áhrif á eftirspurn eftir alþjóðlegri hönnunarvernd í gegnum Haag kerfið. Fjöldi umsókna um alþjóðlega skráningu á hönnun dróst saman um 15% árið 2020 sem er í fyrsta skiptið síðan 2006 sem þeim fækkar milli ára.

Hugverkastofan og Kontor tilnefnd til Lúðursins

Hugverkastofan og auglýsingastofan Kontor Reykjavík voru tilnefnd til Lúðursins, íslensku auglýsingaverðlaunanna, árið 2021.

Tilnefninguna hlutu Hugverkastofan og Kontor fyrir „Það hefst með góðri hugmynd“ í flokknum „Bein markaðssetning“ en þar á við t.d. markpóst í prentuðu eða rafrænu formi, hlut eða gjörning sem sendur er á fyrirfram skilgreindan hóp í þeim tilgangi að framkalla bein viðbrögð.

Það eru ÍMARK, samtök íslensks markaðsfólks, í samráði við Samband íslenskra auglýsingastofa (SÍA), sem standa að verðlaununum.

Hugverkastofan stígur annað Græna skrefið

Í maí 2021 hlaut Hugverkastofan viðurkenningu fyrir að ljúka öðru Græna skrefinu. Á síðustu mánuðum hefur Hugverkastofan gripið til margvíslegra aðgerða sem miða að því að minnka umhverfisáhrif stofnunarinnar.

Til að ljúka skrefinu þurfti Hugverkastofan meðal annars að bæta flokkun, bjóða upp á bætta aðstöðu fyrir hjólafólk, skila grænu bókhaldi og setja sér loftslagsstefnu. Í henni kemur fram að Hugverkastofan muni í jöfnum skrefum, allt til ársins 2030, draga úr losun um 40% miðað við árið 2019. Hugverkastofan er í miklu alþjóðlegu samstarfi með tilheyrandi utanlandsflugi og þeirri losun sem af því hlýst. Í stefnunni eru sett skýr markmið um að draga úr losun frá samgöngum ásamt því að kolefnisjafna starfsemi stofnunarinnar. Þannig ætlar Hugverkastofan ekki aðeins að hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið heldur einnig að vera fyrirmynd fyrir alþjóðlega samstarfsaðila.

Umhverfisstofnun heldur utan um Græn skref sem er ætlað að aðstoða stofnanir við að efla umhverfisstarf sitt. Með þátttöku í Grænum skrefum gefst stofnunum færi á að innleiða öflugt umhverfisstarf með kerfisbundnum hætti undir handleiðslu sérfræðinga. Verkefninu er skipt upp í fimm skref og inniheldur hvert þeirra á bilinu 20-40 aðgerðir sem þarf að innleiða í rekstur Hugverkastofunnar. Umhverfisstofnun veitir viðurkenningu fyrir hvert skref sem lokið er við.

Þátttaka Hugverkastofunnar í Grænum skrefum er í samræmi við endurskoðaða stefnu stofnunarinnar. Eitt af stefnumiðum Hugverkastofunnar er að „stuðla að stöndugum og umhverfisvænum rekstri“. Hugverkastofan hlaut viðurkenningu fyrir að hafa stigið fyrsta Græna skrefið í janúar 2021.

Hugverkastofan á Nýsköpunarvikunni

Hugverkastofan tók þátt í Nýsköpunarvikunni sem haldin var í annað sinn dagana 26. maí til 2. júní 2021.

Nýsköpun og hugverk

Hugverkastofan stóð fyrir viðburði í samstarfi við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins þar sem rætt var hvernig hægt er að nota hugverkaréttindi til að ná árangri í nýsköpun. Á hádegisfundinum fóru Karl Ægir Karlsson, stofnandi og framkvæmdastjóri 3Z, Guðbjörg Rist, framkvæmdastjóri Atmonia, Guðmundur Þór Reynaldsson, hugverkastjóri Marel, og Hilmar Bragi Janusson, framkvæmdastjóri Iðunnar framtakssjóðs, yfir árangurssögur fyrirtækja. Þau ræddu tækifæri og ógnir sem felast í hugverkaréttindum fyrir aðila í nýsköpun. Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar, stýrði fundinum og léttum umræðum.

Hugverkastofan Pop-Up

Hugverkastofan var með útibú, svokallaða „Pop-up Hugverkastofu“, í Grósku á Nýsköpunarvikunni. Útibúið var opið dagana 26. og 31. maí. Þar gafst frumkvöðlum, aðilum í nýsköpun og öðrum gestum tækifæri til að kíkja á starfsfólk Hugverkastofunnar í létt spjall eða ráðgjöf um allt sem viðkemur verndun og hagnýtingu hugverka í nýsköpun.

Hátíðarútgáfa „Að rata í frumkvöðlaumhverfinu.“

Ráðgjafafyrirtækið RATA bauð verðandi, nýjum og núverandi frumkvöðlum og öðrum áhugasömum upp á hátíðarútgáfu af „Að rata í frumkvöðlaumhverfinu,“ í tilefni Nýsköpunarvikunnar. Viðburðurinn hefur verið haldinn mánaðarlega síðasta árið. Tilgangurinn er að halda utan um upplýsingar um stuðningsaðila í umhverfinu og koma þeim áleiðis til frumkvöðla.

Að þessu sinni var um "Ekki-ráðstefnu" á netinu að ræða. Þar gafst þátttakendum færi á að hitta stuðningsaðila og spyrja þá spjörunum úr. Hugverkastofan var með stofu á viðburðinum undir heitinu „Hugverkið ber þig hálfa leið.“ Þar bauðst áhugasömum að ræða um hlutverk, verndun og hagnýtingu hugverka í nýsköpunarferlinu.

Hugverkastofan hefur verið samstarfsaðili Nýsköpunarvikunnar í bæði skiptin sem hátíðin hefur verið haldin. Markmið Nýsköpunarvikunnar er að auka aðgengi og sýnileika nýsköpunar á Íslandi og sýna fram á að nýsköpun gengur þvert á allar atvinnugreinar. Hátíðinni er ætlað að vekja athygli á nýsköpun sem á sér stað á Íslandi innan stofnana, fyrirtækja og sprotafyrirtækja þar sem framúrstefnulegar lausnir, ólík sköpunarferli og kraftmiklir frumkvöðlar fá notið sín.

Fjölmargar hugmyndir
bárust í NKG 2021

Þrátt fyrir heimsfaraldur COVID-19 bárust hugmyndir frá 31 skóla í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna 2021. Aðalverðlaun hlutu þær Ásta Maren Ólafsdóttir og Ásdís Elma Ágústsdóttir í 7. bekk Sandgerðisskóla fyrir hugmyndina "samanbrjótanlegur hjálmur".

Samkvæmt lýsingu hugmyndarinnar er hægt að brjóta saman hjálminn þannig að hann taki minna pláss. Kennari Ástu og Ásdísar er Ragnheiður Alma Snæbjörnsdóttir.

Hlutu þær að verðlaunum 50.000 kr. gjafabréf í ELKO ásamt verðlaunabikar og viðurkenningarskjali sem undirritað var af Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands.

Hugverkastofan er samstarfsaðili NKG og átti Ásdís Kristmundsdóttir, fagstjóri hjá Hugverkastofunni, sæti í dómnefnd.

Nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG) er hugmyndasamkeppni fyrir nemendur í 5. – 7. bekk grunnskóla. Keppnin var haldin í fyrsta skipti árið 1991 og hefur verið haldin óslitið síðan. Undirbúningur fer fram í skólum landsins samhliða skólaárinu þar sem nemendum er kennt að þróa verkefni á sínu áhugasviði, allt frá hugmynd til veruleika. Þetta ferli virkjar sköpunarkraft nemenda í lausnamiðuðum hugsunarhætti og eykur sjálfstraust þeirra og frumkvæði.

Sigurvegarar European Inventor Award 2021 tilkynntir

Fremstu uppfinningamenn heims hlutu viðurkenningar fyrir framlög sín á stafrænni verðlaunaathöfn European Inventor Award 2021 sem fór fram í júní. Verðlaun voru veitt fyrir nýsköpun á sviði lyfjagjafar í gegnum nef, gagnavistun með DNA-kóða, nanóefni í tannviðgerðum, sólarrafhlöður fyrir sjálfhlaðandi tæki, lífræna hálfleiðara og framþróun í vefjatækni.

Sigurvegararnir í ár voru valdir úr hópi hundruða uppfinningamanna frá fjölmörgum löndum sem tilnefndir voru til verðlaunanna. Athöfnin í ár var í fyrsta skiptið haldin stafrænt og var opin almenningi. Þar var einnig tilkynnt að ný verðlaun, Young Inventors prize, yrðu veitt í fyrsta sinn á árinu 2022. Þeim er ætlað að hvetja unga og efnilega uppfinningamenn til dáða.

Sigurvegarar European Inventor Award 2021 eru:

Iðnaður

Per Gisle Djupesland (Noregur)
Betri leið til lyfjagjafar í gegnum nef.

Lækningatæki norska uppfinningamannsins Per Gisle Djupesland notar náttúrulegt form nefsins og öndun sjúklingsins til að veita meðferð við margvíslegum sjúkdómum.

Rannsóknir

Robert N. Grass og Wendelin Stark (Austurríki/Sviss)
Gagnavistun með DNA-kóða.

Þessir austurrísku og svissnesku uppfinningamenn þróuðu nýja aðferð til að vista gögn með því að breyta þeim í genakóða og vista í smágerðum glerhylkjum. Með nýju aðferðinni er möguleiki á að geyma verðmæt gögn í árþúsundir og jafnvel búa til DNA barkóða sem hægt væri að nota til að rekja hluta vöru í gegnum birgðakeðju.

Lönd utan EPO

Sumita Mitra (Indland/Bandaríkin)
Tannfyllingar úr nanóefnum.

Uppgötvun vísindamannsins Sumita Mitra um að nanóklasa væri hægt að nota í tannlækningum  leiddi til þróunar á nýrri, sterkari og endingarbetri tegund tannfyllinga. Efnið sem hún þróaði er betra en margar af eldri tegundum tannfyllinga og hefur þegar verið notað í einn milljarð tannviðgerða um heim allan.

Lítil og meðalstór fyrirtæki

Henrik Lindström and Giovanni Fili (Svíþjóð)
Sveigjanlegar sólarrafhlöður fyrir lítil raftæki.

Í verksmiðju sinni í Svíþjóð þróuðu uppfinningamennirnir sólarrafhlöður með því að nota nýjar tegundir rafskauta með mikla rafleiðni sem hægt er að prenta í næstum hvaða formi eða lit sem er. Sólarrafhlaðan getur meira að segja hlaðið tæki innandyra og því er verið að nota þessa nýju tækni í að þróa raftæki sem hlaða sig sjálf.

Heiðursverðlaun EPO (Lifetime achievement)

Karl Leo (Þýskaland)
Framþróun í lífrænum hálfleiðurum.

Þessi þýski eðlisfræðingur þróaði nýja gerð lífrænna hálfleiðara með því að bæta leiðni þeirra með tækni sem kallast „doping“. Aðferð hans ruddi brautina fyrir nýja kynslóð skjáa sem nota skilvirkar og lífrænar ljósgefandi díóður (OLED). Með þessari tækni er hægt að veita betri birtu, liti, upplausn og orkunýtingu í raftækjum. OLED er nú þegar notað í um helmingi allra snjallsíma og mörgum tegundum léttra sólarrafhlaðna.

Val fólksins

Gordana Vunjak-Novakovic (Serbía/Bandaríkin)
Framþróun í vefjatækni

Verðlaunin í flokknum „Val fólksins,“ hlaut sigurvegari netkosninga þar sem hægt var að velja einn af 15 uppfinningamönnum sem tilnefndir voru til European Inventor Award 2021. Að þessu sinni hlaut serbnesk-bandaríski líftækniverkfræðingurinn Gordana Vunjak-Novakovic verðlaunin fyrir framþróun á sviði vefjalækninga með því að þróa aðferð til að skapa nýjan vef ex vivo (utan líkama) þar sem notaðar eru frumur sjúklingsins sjálfs.

European Inventor Award var nú haldið í 15. sinn. Verðlaunin eru veitt árlega af Evrópsku einkaleyfastofunni (EPO) til að verðlauna framúrskarandi einstaklinga fyrir einstakt framlag þeirra til samfélagsins, tækniþróunar og hagvaxtar. Sigurvegarar og tilnefndir aðilar í flokkunum fimm voru valdir af sjálfstæðri alþjóðlegri dómnefnd. Allir uppfinningamennirnir eiga það sameiginlegt að hafa notað evrópska einkaleyfakerfið til að vernda tækni sína og þannig gert öðrum uppfinningamönnum og rannsakendum kleift að byggja á nýsköpun þeirra.

Ísland í 13. sæti European Innovation Scoreboard 2021

Ísland féll um eitt sæti á Evrópsku stigatöflunni um nýsköpun 2021 (European Innovation Scoreboard 2021 – EIS 2021). Ísland er í 13. sæti af þeim 38 löndum sem tekin voru fyrir í skýrslunni. Þar kemur fram að nýsköpun hér á landi er yfir meðaltali samanborið við ríki Evrópusambandsins og Ísland því flokkað sem „Strong innovator“.

Ísland fær 109,9 stig þar sem 100 er meðalskor Evrópusambandsins. Frammistaðan er því lakari en í fyrra þegar Ísland var með 114,1 stig.

Helstu styrkleikar Íslands samkvæmt skýrslunni eru birtingar á alþjóðlegum vísindagreinum, sameiginlegar birtingar opinberra og einkaaðila og endurmenntun. Á síðustu árum hefur frammistaða Íslands hins vegar versnað á sviði doktorsnáms, rannsóknar- og þróunarfjárfestinga hjá fyrirtækjum, nýsköpunar á sviði vöru- og viðskiptaferla, hreyfanleika á milli starfa á sviði vísinda og tækni, hönnunarumsókna og atvinnu í þekkingargeiranum.

Þegar kemur að hugverkaréttindum er Ísland talið sterkt á sviði alþjóðlegra PCT einkaleyfaumsókna (110,7 stig) en undir meðaltali á sviði vörumerkjaumsókna (68,9 stig) og hönnunarumsókna (5,1 stig).

Sviss er talið hafa mestu nýsköpunargetuna í Evrópu samkvæmt skýrslunni. Þar á eftir koma Norðurlandaþjóðirnar Svíþjóð, Finnland og Danmörk. Frammistaða Íslands hefur aukist hóflega frá því mælingarnar hófust árið 2014, eða um 7,9%. Noregur hefur bætt sig mest á þessum tíma eða um 25,9%.

Hugverkastofan á Startup Supernova

Líkt og síðustu ár var Hugverkastofan með vinnustofu fyrir þátttakendur í viðskiptahraðlinum Startup Supernova. Á vinnustofunni var farið yfir hvað nýsköpunarfyrirtæki þurfa að hafa í huga við vernd hugverkanna sinna og hvernig hægt er að nota hugverkaréttindi til að ná árangri í nýsköpun og viðskiptum.

Startup Supernova er samstarfsverkefni Icelandic Startups og Nova. Þar er leitast við að byggja upp viðskiptalausnir sem ætlaðar eru alþjóðamarkaði.

Ísland upp um fjögur sæti á nýsköpunarvísitölu WIPOSviss er í efsta sæti vísitölunnar líkt og árið á undan. Þar á eftir koma Svíþjóð, Bandaríkin, Bretland og Suður-Kórea. Norðurlandaþjóðirnar eru allar ofarlega líkt og síðustu ár. Svíþjóð er í öðru sæti á meðan Finnland er í 7. sæti, Danmörk í 9. sæti og Noregur í 20. sæti líkt og í fyrra.

Vísitalan tekur saman og raðar nýsköpunargetu og -árangri aðildarríkja stofnunarinnar. Meðal annars er litið til árangurs í hugverkaframleiðslu og -vernd ásamt fjárfestingu í nýsköpun. Ísland skorar tiltölulega hátt í þremur af sjö undirstöðum vísitölunnar: Stofnanir (e. Institutions), viðskiptaumhverfi (e. Business sophistication) og hugvitsafurðir (e. Creative outputs), en í þeirri síðastnefndu er Ísland í 10. sæti.

Á sama tíma skorar Ísland tiltölulega lágt í fjórum undirstöðum: Mannauður og rannsóknir (e. Human capital & research), innviðir (e. Infrastructure), markaðsumhverfi (e. Market sophistication) og þekkingar- og tækniafurðir (e. Knowledge & technology outputs), en skráningar á einkaleyfum og tekjur vegna hugverkaréttinda heyra undir þá síðasttöldu.

Daren Tang, forstjóri Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO), segir að nýjustu tölurnar sýni að þrátt fyrir að heimsfaraldur COVID-19 hafi haft mikil áhrif á líf og lífsviðurværi fólks hafi iðnaður sýnt merkilega seiglu – sérstaklega iðnaður sem hefur lagt áherslu á stafræna umbreytingu, tæknilausnir og nýsköpun. „Þegar heimurinn er að horfa til enduruppbyggingar í kjölfar faraldursins vitum við að nýsköpun verður nauðsynlegur hluti af því að komast yfir sameiginlegar áskoranir við að byggja upp betri framtíð. Nýsköpunarvísitalan er einstakur vísir fyrir stjórnvöld og fyrirtæki til að aðstoða þau við að skapa áætlanir til að koma sterkari út úr faraldrinum.“
Ísland fór upp um fjögur sæti á nýsköpunarvísitölu Alþjóðahugverka-stofnunarinnar (e. Global Innovation Index, GII) fyrir árið 2021. Ísland er nú í 17. sæti vísitölunnar.

Hugverkastofan í Masterclass Auðnu Tæknitorgs

Í september var Hugverkastofan með erindi í Masterclass Auðnu Tæknitorgs um verðmætasköpun í líf- og heilsutækni.

Þriðja Græna skrefið

Þann 1. október 2021 hlaut Hugverkastofan viðurkenningu fyrir að ljúka við þriðja Græna skrefið. Innleiðing Grænu skrefanna hefur gengið hratt og örugglega fyrir sig hjá Hugverkastofunni en þetta er þriðja skrefið sem tekið er árið 2021.

Til þess að uppfylla aðgerðirnar í skrefinu þurfti Hugverkastofan meðal annars og bjóða upp á fjarvinnu minnst einu sinni í viku, setja sér aðgerðaráætlun með mælanleg markmið og uppfylla silfur vottun í hjólavottun vinnustaða.

Þátttaka Hugverkastofunnar í Grænum skrefum er í samræmi við stefnu stofnunarinnar að „starfsemi Hugverkastofunnar hafi sem minnst áhrif á umhverfið“.

Vísindaferð Gulleggsins

Hugverkastofan tók þátt í Vísindaferð Gulleggsins sem haldin var í Grósku 22. október. Yfir 500 háskólanemar mættu til að kynna sér þessa stærstu frumkvöðlakeppni landsins. Stuðningsaðilar Gulleggsins voru á svæðinu með bása til að spjalla við fólk.

Gulleggið er keppni á hugmyndastigi. Það eina sem þarf til að taka þátt er hugmynd og í raun er hægt að skrá sig til þátttöku án hugmyndar og fá þeir einstaklingar að finna sér teymi inni í keppninni.

Hugverkastofan hlýtur jafnlaunavottun

Hugverkastofan hefur hlotið jafnlaunavottun samkvæmt ÍST 85:2012 staðlinum. Með innleiðingu staðalsins hefur stofnunin komið sér upp stjórnkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum séu rekjanlegar, byggi á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun. Stefna Hugverkastofunnar er að allt starfsfólk, óháð kyni, njóti jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf, þannig að enginn ómálefnalegur launamunur sé til staðar. Vottunin nær yfir allt starfsfólk Hugverkastofunnar, að undanskildu starfsfólki Faggildingarsviðs. Jafnlaunastefna og jafnréttisáætlun Hugverkastofunnar er aðgengileg á vef stofnunarinnar. Með jafnlaunavottuninni hefur Hugverkastofan öðlast heimild til að nota jafnlaunamerkið til næstu þriggja ára. Jafnlaunamerkið er skráð vörumerki. Því er ætlað að vera gæðastimpill og hluti af ímynd og orðspori fyrirtækja og stofnana.

Borghildur Erlingsdóttir endurkjörin varaformaður framkvæmdaráðs EPO

Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar, var endurkjörin varaformaður framkvæmdaráðs Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO). Kosningin fór fram á fundi framkvæmdaráðsins 14. desember 2021.

Fundurinn fór fram rafrænt líkt og aðrir fundir framkvæmdaráðsins síðan heimsfaraldur COVID-19 skall á í byrjun 2020. Varaformaður situr í stjórn framkvæmdaráðs EPO. Þar eru öll stjórnunartengd mál EPO rædd og ákvarðanir teknar í tengslum við það. Stjórn framkvæmdaráðsins vinnur einnig náið með stjórnendum EPO og fundar reglulega með þeim. Þá er það hlutverk varaformanns að stýra fundum framkvæmdaráðs í fjarveru formanns.

EPO hefur ráðist í mikla vinnu við að laga starfsemi stofnunarinnar að breyttum aðstæðum í heimsfaraldrinum með aukinni áherslu á stafræna þróun og fjarvinnu. EPO hefur einnig þurft að laga sig að örum tæknibreytingum vegna fjórðu iðnbyltingarinnar sem hefur bæði haft áhrif á tæknisvið einkaleyfaumsókna og það hvernig tækni er notuð við að meðhöndla og rannsaka einkaleyfaumsóknir. Forseti stofnunarinnar, Antonio Campinos, tók við árið 2018 og hefur hann boðað miklar breytingar til að takast á við þessar áskoranir.
EPO er ein stærsta alþjóðastofnun í Evrópu með rúmlega 7 þúsund starfsmenn frá 35 löndum. Höfuðstöðvar hennar eru í München í Þýskalandi. Stofnunin er ein sú virtasta í heimi á sviði hugverkaréttinda. Ísland gerðist aðili að EPO árið 2004. Síðan þá hefur fjöldi staðfestra einkaleyfa hér á landi sem koma í gegnum EPO aukist gríðarlega. Árið 2020 voru þau 1.445 talsins. Þau eru langstærsti hluti einkaleyfa sem eru í gildi hér á landi.

EPO Patent Index 2021: Metfjöldi íslenskra einkaleyfisumsókna

Metfjöldi einkaleyfisumsókna barst frá íslenskum aðilum til Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO) árið 2021. 62 einkaleyfisumsóknir voru lagðar inn af íslenskum aðilum til EPO á árinu 2021 sem er aukning um 51,2% milli ára.
  • Íslenskum einkaleyfisumsóknum fjölgaði úr 40 í 62 sem er aukning um 51,2% milli ára.
  • Ísland er með 168 umsóknir á hverja milljón íbúa sem er hærra en meðaltalið í ríkjum Evrópusambandsins (155).
  • Alls fjölgaði umsóknum til EPO um 4,5% milli ára.
  • Mikil fjölgun umsókna á sviði stafrænnar tækni og heilsutækni. Flestar umsóknir koma frá Bandaríkjunum en mesta fjölgunin frá Kína.
  • Kínverska tæknifyrirtækið Huawei helsti umsóknaraðilinn en þar á eftir koma suður-kóresku fyrirtækin Samsung og LG.

Íslenskum umsóknum fjölgar mikið

Eftir 20% fækkun umsókna árið 2020 hefur umsóknarfjöldi íslenskra fyrirtækja tekið við sér þar sem aldrei hafa fleiri íslenskar umsóknir borist EPO en á árinu 2021. Flestar íslenskar umsóknir árið 2021 voru á sviði læknisfræðilegrar tækni (30,6%) en einnig var stór hluti umsókna á sviði annarra sérhæfðra véla (17,7%).

Alls fjölgaði einkaleyfisumsóknum hjá EPO um 4,5% milli ára og hefur umsóknarfjöldinn náð sér á strik eftir fækkun árið 2020 sem mátti rekja til heimsfaraldurs COVID-19. Aukinn fjölda umsókna má meðal annars rekja til fjölda einkaleyfisumsókna á sviði stafrænnar tækni og heilsutækni.

Mikill vöxtur í stafrænni tækni og heilsutækni

Mikil aukning var í fjölda einkaleyfa á sviði stafrænna samskipta (+9,4%) og tölvutækni (+9,7%). Stafræn tækni er nú helsta tæknisvið einkaleyfisumsókna EPO ásamt læknisfræðilegri tækni, en undanfarin ár hefur stór hluti íslenskra umsókna komið frá síðarnefnda tæknisviðinu. Töluverða aukningu var líka að sjá á sviði hljóð- og myndmiðlunar (+24%) og hálfleiðara (+21%) Aukna virkni var líka að sjá á sviði lyfjafræði (+6,9%) og líftækni (+6,6%), en það má meðal annars rekja til aukinnar nýsköpunar á sviði bóluefnaþróunar

Mestur vöxtur hjá kínverskum fyrirtækjum

Líkt og í fyrra koma flestar umsóknir frá Bandaríkjunum (með um 25% umsókna). Þar á eftir koma Þýskaland (14%), Japan (11%), Kína (9%) og Frakkland (6%). Mesta aukningin kom frá Kína, en umsóknum þaðan fjölgaði um 24% milli ára.

Ísland er með 168 einkaleyfisumsóknir á hverja milljón íbúa sem er yfir meðaltali Evrópusambandsins (155 umsóknir á hverja milljón íbúa) en nokkuð undir Sviss sem er með flestar umsóknir á hverja milljón íbúa, eða 969. Þar á eftir koma Svíþjóð (488), Danmörk (454), Holland (383) og Finnland (380).

Huawei helsti umsækjandinn

Líkt og árið 2019 var kínverska tæknifyrirtækið Huawei helsti einstaki umsækjandinn hjá EPO árið 2021. Þar á eftir voru suður-kóresku tæknifyrirtækin Samsung og LG. Ericsson og Siemens voru í 4. og 5. sæti listans. Af tíu efstu fyrirtækjunum voru fjögur frá Evrópu, tvö frá Suður-Kóreu, tvö frá Bandaríkjunum, eitt frá Kína og eitt frá Japan.

Evrópska einkaleyfastofan er ein stærsta alþjóðastofnun í Evrópu með rúmlega 7 þúsund starfsmenn frá 35 löndum en höfuðstöðvar hennar eru í München í Þýskalandi. Stofnunin er ein sú virtasta í heimi á sviði hugverkaréttinda en Ísland gerðist aðili að EPO árið 2004. Síðan þá hefur fjöldi staðfestra einkaleyfa hér á landi sem koma í gegnum EPO aukist gríðarlega en árið 2021 tóku rúmlega 1.400 evrópsk einkaleyfi gildi hér á landi.

Meira um EPO Patent Index 2021 má finna hér.
Aftur heim