Hugverk og hugverkaréttindi

3
/10

Íslenska sauðkindin og afurðarheiti

Dagný Fjóla Jóhannsdóttir

Lögfræðingur / fagstjóri

Feta, Camembert og íslenskt lambakjöt – allt eru þetta heiti sem við þekkjum vel. Það sem meira er, þessi heiti eru vernduð sem svokölluð afurðarheiti. Það er, eins og orðið gefur til kynna, heiti sem notað er til að tilgreina afurð.

Með lögum nr. 130/2014 um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu er íslenskum framleiðendum gert mögulegt að sækja um sérstaka vernd fyrir afurðir sínar, en markmið laganna er að stuðla að neytendavernd, auka virði afurða og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti. Lögin gilda um heiti matvæla, léttvíns og brenndra drykkja, en einnig aðrar afurðir sem ekki eru matarkyns, svo sem ull, fjaðrir, skinn, fiskroð, leður o.fl. Skilyrði fyrir því að afurð hljóti vernd eru m.a. að afurðin sé upprunnin á tilteknu svæði, stað eða landi, að rekja megi gæði eða eiginleika afurðarinnar til staðarins og að framleiðsla afurðar fari fram á hinu skilgreinda landsvæði. Hér á landi eru nú skráð tvö afurðarheiti sem bæði tengjast íslensku sauðkindinni, annars vegar íslenskt lambakjöt og hins vegar íslensk lopapeysa. Skráningarnar koma í veg fyrir að aðrir en þeir sem heimild hafa til geti notað umrædd heiti í tengslum við markaðssetningu á sínum vörum, nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Í maí 2018 undirritaði Ísland samning við Evrópusambandið þar sem aðilar skuldbinda sig til að vernda afurðarheiti hvors annars. Þegar Hugverkastofan metur skráningarhæfi vörumerkja á grundvelli laga nr. 45/1997 um vörumerki, ber stofnuninni að synja skráningu merkis ef fyrir er til skráð afurðarheiti hér á landi eða í Evrópusambandinu, fyrir sömu eða svipaðar vörur, samanber 10. tl. 1. mgr. 14. gr. vörumerkjalaga. Nýlega var umræddu ákvæði beitt í fyrsta sinn þegar Mjólkursamsalan sótti um skráningu tveggja vörumerkja sem vísuðu til Feta osts, en Feta er skráð afurðarheiti í Evrópusambandinu fyrir ost sem upprunninn er í Grikklandi. Umsóknunum var hafnað vegna þessa, en allar líkur eru á því að það sama yrði uppi á teningnum ef sótt væri um skráningu vörumerkis í Evrópusambandinu sem vísaði til íslensks lambs eða íslenskrar lopapeysu.

Fyrri

Hugverk eru heimsins gæfa

Næst

Stjórnsýsluleg niðurfelling senn á tímamótum - litið yfir farinn veg