Pistlar

5
/9

Tækifæri og verðmæti í verndun hugverka

Verðmætin í verndun hugverka er yfirskrift greinar birt var í Fréttablaðinu 11. júní 2020 eftir þær Borghildi Erlingsdóttur, forstjóra Hugverkastofunnar, Ástu S. Fjeldsted, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands, og Sigríði Mogensen, sviðsstjóra hugverkasviðs SI:

Hugverk eru í dag ein helstu verðmæti fyrirtækja. Hvort sem það er einkaleyfi, vörumerki, hönnun eða höfundaréttarvarið efni þá eru hugverk nauðsynleg viðskiptatæki í nútíma iðnaði og alþjóðaviðskiptum. Draga má lærdóm af hugverkafyrir-tækjum á borð við CCP, Össur og Marel, sem byggja sinn árangur og verðmætasköpun á hugverkum. Í umróti heims-faraldurs og efnahagskreppu hafa nýsköpun, hugverk og hugvit aldrei verið mikilvægari. Tækifærin eru óþrjótandi. Með réttum áherslum á sviði hugverkaverndar í íslensku atvinnulífi og hjá stjórnvöldum er hægt að skapa grundvöll fyrir aukna verðmæta- og atvinnusköpun.

Hugverk eru auðlind

Síðustu áratugi hafa orðið miklar breytingar á iðnaði og viðskiptum hér á landi og erlendis. Helstu verðmæti fyrirtækja eru í síauknum mæli þekking og hugvit. Beinar tekjur af hugverkum hafa einnig verið að aukast síðustu ár og eru hugverk orðin mikilvægur hluti af þjónustuútflutningi Íslands.
Hugverkaiðnaður er jafnframt ein af undirstöðum íslenska hagkerfisins. Samkvæmt skýrslu Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) og Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO) standa íslensk fyrirtæki sem leggja mikið upp úr hugverkaréttindum undir 40% af vergri landsframleiðslu og 29% af öllum störfum hér á landi. Skýrslan sýnir einnig að í hugverkaiðnaði eru greidd umtalsvert hærri laun en í atvinnugreinum sem byggja fyrst og fremst á auðlindum, en fyrirtæki sem nýta sér hugverkaréttindi í miklum mæli greiða að meðaltali 47% hærri laun en önnur fyrirtæki. Talan er enn hærri hjá fyrirtækjum sem nýta sér einkaleyfi í miklum mæli en þau greiða að meðaltali 72% hærri laun en önnur.


Mikil tækifæri í verndun hugverka

Líklegt er að kórónuveirufaraldurinn muni virka sem hraðall fyrir tæknibreytingar og má því gera ráð fyrir að mikilvægi hugverka verði enn meira. Íslensk fyrirtæki þurfa að bregðast við þessum nýja raunveruleika.
Aukin áhersla á nýsköpun og verndun og hagnýtingu hugverka geta spilað lykilhlutverk í að skapa verðmæti og störf hér á landi, bæta samkeppnisstöðu og samkeppnishæfni Íslands og auka velsæld.
Rétt stjórnun og hagnýting hugverka getur skilað gríðarlega miklum ábata fyrir fyrirtæki og samfélagið í heild sinni. Til skemmri tíma mun aukin áhersla á nýsköpun og verndun hugverka styðja við viðspyrnu efnahagslífsins og til lengri tíma litið mun fjárfesting í nýsköpun skapa grundvöll fyrir sterkara atvinnulíf með aukinni getu til að nýta okkar helstu auðlind í að skapa verðmæti og störf, hugvitið.

BorghildurErlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar
Ásta S.Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands
SigríðurMogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins

Greinina í Fréttablaðinu er hægt að lesa hér.

Fyrri

Hugverk í heimsfaraldri

Næst

Situr tíkin til borðs með mafíunni?