Pistlar

6
/9

Situr tíkin til borðs með mafíunni?

Hanna Lillý Karlsdóttir

Lögfræðingur og fagstjóri

Merki sem stríða gegn allsherjarreglu (e. public policy) eða almennu siðgæði (e. accepted principles of morality) eru ekki skráningarhæf, sbr. 6. tl. 1. mgr. 13. gr. vml. nr. 45/1997. Með allsherjarreglu er átt við að lögum og reglum sé haldið uppi í samfélaginu eftir því sem nauðsynlegt verður að teljast og setja má tjáningarfrelsinu skorður í þágu allsherjarreglu. Orðabókaskilgreiningin á siðgæði er gott siðferði eða það að vera siðlegur.

Vandi skráningaryfirvalda

Þegar tilefni er til standa skráningaryfirvöld frammi fyrir þeim vanda hvaða mælikvarða eigi að leggja til grundvallar því hvort að merki sé andstætt lögum, stríði gegn allsherjarreglu, fari gegn almennu siðgæði eða hafi táknræna þýðingu. Eins og með önnur efnisákvæði vörumerkjalaganna þá er ákvæðið matskennt, þ.e.a.s. stjórnvald, hér Hugverkastofan, hefur ákveðið svigrúm, þó innan ramma ákvæðisins, til að leggja mat á það hvort því verði beitt. Ákvæðið vekur upp ýmsar spurningar, og er sumum kannski auðsvarað á meðan aðrar eru erfiðari viðfangs. Til dæmis mætti telja það einfaldara að slá því föstu að merki sé andstætt lögum eða stríði gegn allsherjarreglu. Þar að baki liggur hlutlægt mat og því minna svigrúm til huglægs mats. En málin vandast þegar leggja þarf mat á hvort merki fari gegn almennu siðgæði. Þetta er rúmt hugtak sem er ekki skilgreint frekar, hvorki í ákvæðinu sjálfu eða greinargerð, og við mat á því hvort beita eigi ákvæðinu liggur huglægt mat. Skilningur fólks á „siðgæði“ getur tekið breytingum frá einum tíma til annars og getur breyst eftir tíðaranda, samfélagsástandi o.s.frv.


En í hvaða tilvikum reynir á ákvæðið og einkum „almennt siðgæði“? Fyrirrennari núgildandi ákvæðis var 3. tl. 1. mgr. 14. gr. vml. og átti ákvæðið að taka m.a. til þess þegar merki valda andúð vegna stjórnmálalegra, siðferðislegra eða trúarlegra sjónarmiða. Ætla má að merki sem fela í sér guðlast, eru rasísk, stuðla að ójafnrétti eða óréttlæti eða eru móðgandi sé ekki hægt að skrá á þessum grundvelli og samkvæmt leiðbeiningum Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) er það svo en aðeins ef merking þeirra er sett fram með ótvíræðum hætti. En hvað með blótsyrði eða slangur sem er notað í neikvæðri merkingu, eða merki sem vísa til ólögmætra athafna? Komum við þá aftur að álitaefninu; hver er mælikvarðinn? Hver er það sem ákveður að merki stríði gegn almennu siðgæði? Er þörf á siðgæðisverði? Ef svo er, hver á þá að þjóna því hlutverki?


„Þótt einstakir menn, þröngsýnir eða bitrir, hneykslist á vörumerki þá er það ekki næg ástæða til synjunar á skráningu“ segir í bókinni Vörumerkjaréttur, eða með öðrum orðum, persónuleg skoðun á tilteknu vörumerki er eðlilega ekki málefnaleg ástæða. Stjórnvald, þ.e. sá einstaklingur sem fer með það vald í hverju máli, má ekki láta stjórnast af eigin persónulegri skoðun við mat á skráningarhæfi merkisins á þessum grundvelli. Enn fremur má ætla að skoðun fámenns hóps, hvort heldur er til hneykslunar eða sem myndi láta sér það í léttu rúmi liggja, er heldur ekki mælikvarði. Fara þarf bil beggja. Samkvæmt Evrópudómstólnum er mælikvarðinn hinn almenni skynsami neytandi sem er í meðallagi viðkvæmur og umburðarlyndur.


Er eitthvað sem alls ekki má?

Ekki er langt síðan Þjóðkirkjan birti auglýsingu um sunnudagaskólann og þótti mörgum nóg um vegna þess hvernig Jesú birtist í auglýsingunni. Svo virtist sem almenningur skiptist í tvær fylkingar – á meðan annar hópurinn fordæmdi auglýsinguna fagnaði hinn hópurinn þeim fjölbreytileika sem þar birtist. Það fór þó þannig að lokum að notkun auglýsingarinnar var hætt. Þá greindi fjölmiðill einn fyrir nokkru frá auglýsingu gosdrykkjaframleiðanda hér á landi sem olli þó nokkru fjaðrafoki hjá fámennum hópi fólks. Var þar á ferð auglýsing fyrir drykkinn Jesúlaði og fannst nokkrum nóg um og hugtakinu „guðlast“ var kastað fram (hér skal tekið fram að ekki er um umsókn eða skráningu að ræða). Þó ekki alveg sambærilegt tilvik en þetta minnti mig á vin minn sem fyrir mörgum árum heyrði slagorðið „Snakk fyrir pakk“ fyrir tiltekna snakktegund og í kjölfarið gat hann ekki hugsað sér að kaupa þessa tilteknu vöru vegna þeirra skilaboða sem slagorðið fól mögulega í sér – í raun fannst honum skilaboðin vera móðgandi. Þessi skoðun hans varð þó ekki til þess að hann tjáði sig á opinberum vettvangi til að lýsa hneykslan sinni á þessu tiltekna slagorði en hann lá ekki á skoðun sinni þegar svo háttaði til.


Eins má nefna dæmi erlendis frá en Kim Kardashian West hugðist skrá vörumerkið KIMONO, m.a. fyrir aðhaldsfatnað. Hún var gerð afturreka með þá fyrirætlun sína eftir holskeflu gagnrýnisradda þar sem hún var sökuð um menningarlega eignaupptöku (e. cultural appropriation) en hún er ekki sú fyrsta og ekki sú síðasta til að nýta sér hluta úr menningu annarra í sína eigin þágu. Ekki er endilega hér um að ræða að merkið sjálft hafi farið gegn almennu siðgæði en gagnrýnisraddirnar voru nógu háar til þess að hún breytti áætlun sinni. Að endingu sótti hún um og fékk skráð merkið SKIMS.


Til eru ótal dæmi sem sýna að neytendur upplifa vörumerki með mismunandi hætti – og tengja ýmist jákvæðar eða neikvæðar tilfinningar við vörumerki – á meðan sumir hneykslast á tilteknu vörumerki finnst öðrum það kannski bráðsniðugt.


Til þess að átta sig betur á þeim merkjum sem mögulega kemur til greina að beita framangreindum synjunarástæðum á, má líta til innlendrar sem og erlendrar framkvæmdar. Hér á landi hefur eftirtöldum merkjum m.a. verið synjað: CANNABIA, F*** ME I‘M FAMOUS, LANDI, LSD og SHOPAMAN. EUIPO hefur synjað töluvert af merkjum sem hafa tilvísun til kannabis, svo sem 420, YES CANNABIS (að hluta), THC o.fl. Innihaldi merki orðhluta svo sem F*** eða Fucking o.s.frv. má umsækjandi allt eins eiga von á því að fá synjun frá EUIPO, sbr. t.d. FUCK CANCER og FUCKING STRONG COFFEE. Meðal annarra dæma má nefna SCREW YOU. Norðmenn hafa hafnað t.d. CHEROKEE, BERSERK, BUDDHA TO BUDDHA, FUCK WINTER og COCAINE svo fátt eitt sé nefnt. Norðmenn hafa hins vegar skráð orð- og myndmerkið FUCK CANCER í kjölfar synjunar.


Ekki verður annað sagt en sinn er siður í landi hverju.

Mafían og tíkin

Í ljósi framangreindrar umfjöllunar má til gamans gera stuttlega grein fyrir tveimur áhugaverðum málum, annars vegar máli sem kom til kasta Evrópudómstólsins þar sem m.a. grunngildi sambandsins voru til skoðunar, út frá bæði sjónarmiðum um allsherjarreglu og almennt siðgæði, og hins vegar mál sem er til meðferðar hjá norsku hugverkastofnuninni (n. Patentstyret) þar sem er til skoðunar orð sem er fullkomlega eðlilegt að nota um kvenkyn ákveðinnar dýrategundar en ekki aðra.


Í nóvember árið 2006 var sótt var um skráningu orð- og myndmerkisins La Mafia se sienta a la mesa (sem á íslensku má útleggja sem Mafían situr við borðið) fyrir vörur og þjónustu í flokkum 25, 35 og 43 og skráð í desember árið 2007.


Í júlí 2015 lagði ítalska ríkið inn beiðni um ógildingu merkisins í heild á grundvelli þess að skráning þess færi gegn allsherjarreglu og viðurkenndum siðgæðisreglum, m.a. á þeim forsendum að orðhlutinn „Mafia“ vísaði til skipulagðra glæpasamtaka og með því að nota það sem auðkenni fyrir veitingahúsakeðju væri, fyrir utan að vekja upp neikvæðar tilfinningar, verið að misnota hina jákvæðu ímynd sem ítölsk matargerð hefur og gera lítið úr neikvæðri merkingu orðsins.


Niðurstaðan í stuttu máli var sú að merkið var talið vísa til skipulagðra glæpasamtaka, fæli í sér jákvæða ímynd slíkra samtaka og gerði lítið úr því alvarlega tjóni sem slík samtök ynnu á grunngildum Evrópusambandsins. Merkið væri því til þess fallið að móðga og særa, ekki bara fórnarlömb slíkra samtaka og fjölskyldur þeirra, heldur einnig hvern þann sem stendur frammi fyrir eða sér merkið og er í meðallagi viðkvæmur og umburðarlyndur.


Í kjölfarið hefur EUIPO synjað merkjum sem innihalda orðhlutann Mafia skráningu á þessum sömu forsendum.


Fyrir nokkru birtist í norskum fjölmiðli frétt sem sagði frá því að norska systurstofnunin hefði synjað umsókn um skráningu vörumerkisins BASIC BITCH. Svo því sé haldið til haga þá er um fyrirhugaða synjun að ræða.


Forsendur fyrir hinni fyrirhuguðu synjun voru þær að merkið færi gegn almennu siðgæði (n. strider mot moral). Meðal annars var vísað til þess að bitch væri niðrandi orð sem þýddi tík eða skítatík (n. drittkjerring). Orðasambandið basic bitch væri slangur í bandarískri dægurmenningu og notað með niðrandi hætti til að lýsa konum sem fylgja straumnum. Með þeim orðum taldi norska stofnunin sér ekki stætt á að skrá merkið þar sem það færi gegn siðferðiskennd almennings eða þætti móðgandi.


Norðmenn geta ekki verið annað en samkvæmir sjálfum sér en áður hafði merkið 100% THAT BITCH, alþjóðleg skráning sem tilnefnir ekki bara Noreg heldur einnig Ísland, fengið sömu meðferð. Umsækjandi er söngkonan Lizzo. Í synjun sinni sögðu hinir norsku frændur okkar að orðið bitch væri móðgandi orð um konur og líta mætti á orðasambandið í heild sem tilvísun til konu sem væri óvinsamleg eða ógeðfelld. Að mati stofnunarinnar var merkið talið vera til þess fallið að vera móðgandi.


Þessi niðurstaða frænda okkar Norðmanna er einkar áhugaverð, sérstaklega þegar haft er í huga að niðurstaða hérlendra skráningaryfirvalda var sú að 100% THAT BITCH var samþykkt til skráningar með það fyrir augum, mögulega, að frasinn þætti frekar vera valdeflandi fyrir konur heldur en hitt. Hér skal þó ekki fullyrt um ástæður skráningarinnar. Hin alþjóðlega skráning tilnefndi 17 ríki og af þeim hafa átta ríki, til þessa dags, synjað skráningu á sömu forsendum og Norðmenn.


Felur synjun um skráningu merkis í sér takmörkun á tjáningarfrelsinu?

Þessari spurningu hafa erlendir fræðimenn velt upp og þá einkum þegar til skoðunar er synjun á grundvelli þess að merki stríði gegn allsherjarreglu eða almennu siðgæði. Spurningin er stór en stutta svarið er samkvæmt Evrópudómstólnum: Nei, synjun um skráningu vörumerkis á þessum grundvelli felur ekki í sér takmörkun á tjáningarfrelsinu, því með synjun er ekki verið að banna notkun merkis heldur aðeins verið að tiltaka að merki njóti ekki verndar samkvæmt vörumerkjalögum.


Lokaorð

Tímarnir breytast og mennirnir með. Grunngildi ríkis taka ekki stórkostlegum breytingum í áranna rás en hvað með þolmörk eða þröskuld hins almenna neytanda? Við lifum á skrýtnum tímum og í miðjum heimsfaraldri á mikilvitundarvakning sér stað erlendis, einkum í garð minnihlutahópa, sem hefur svo aftur haft í för með sér svokallaða höfnunarmenningu (e. cancellationculture) og móðgunargirni fyrir hönd annarra o.fl. Alla jafna mætti telja að þolmörkin væru að færast ofar, sérstaklega ef haft er í huga allt það efni sem dynur á okkur í ljósvakamiðlunum, en þegar nánar er að gáð þá er ekki víst að svo sé. En tíminn verður að leiða það í ljós. Það er þó ljóst að hinn gullni meðalvegur er og verður alltaf vandmeðfarinn.


En siðgæðisvörðurinn? Ætli hann sé ekki samfélagið sjálft á hverjum tíma?

Fyrri

Tækifæri og verðmæti í verndun hugverka

Næst

Snjallvæðing hugverka – Fjórða iðnbyltingin og nýsköpun