Fyrst um sinn verða engar breytingar á sambandi Íslands við Bretland, þar sem aðlögunartímabil tekur gildi til loka 2020.
Meðan á aðlögunartímabilinu stendur munu Evrópuvörumerki (e. European Union trade mark - EUTM) enn vera í gildi í Bretlandi en fjölmörg íslensk fyrirtæki eiga slík merki skráð.
Að loknu aðlögunartímabilinu mun u.þ.b. 1,4 milljónum Evrópuvörumerkja verða breytt í sambærilegar breskar vörumerkjaskráningar. Þessar breytingar taka því gildi 1. janúar 2021. Útganga Breta mun ekki hafa áhrif á vörumerki íslenskra fyrirtækja sem eru skráð beint hjá Bresku hugverkastofunni (UKIPO).
Það sama á við um skráða ESB hönnun í eigu íslenskra fyrirtækja (e. Registered Community Design – RCD). Slíkar skráningar halda gildi sínu á aðlögunartímabilinu, en þann 1. janúar 2021 mun þeim verða breytt í sambærilegar breskar hönnunarskráningar.
Ekki er fyrirséð að útganga Breta muni hafa áhrif á skráningu og gildi einkaleyfa íslenskra fyrirtækja í Bretlandi þar sem útgangan hefur ekki áhrif á Evrópska einkaleyfasamninginn sem bæði Ísland og Bretar eru aðilar að.
Þá var í samningi EES-EFTA ríkjanna ennfremur samið um gagnkvæma vernd afurðarheita á aðlögunartímabilinu, vernd gagnagrunna og tæmingu vörumerkjaréttar.
Hugverkaréttindi verða mikilvægur hluti af samningaviðræðum milli Bretlands og Evrópusambandsins, sem munu eiga sér stað á aðlögunartímabili sem nú er að hefjast. Samhliða þessum viðræðum munu Ísland og Bretland eiga viðræður um framtíðarsamskipti ríkjanna, þ. á m. á sviði hugverkaréttinda.
Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er nú verið að skoða möguleika á samstarfi EFTA-ríkjanna innan EES þar sem það á við og samræmist hagsmunum ríkjanna. Mikill vilji ríkir í Bretlandi og á Íslandi til að tryggja áfram náin tengsl og hagstæð viðskipti ríkjanna.
Í hnotskurn: