Pistlar

2
/5

Hljóðmerki

Pétur Vilhjálmsson

stafrænn leiðtogi

Vörumerki eru allt í kringum okkur. Þau eru margs konar tákn sem fólk og fyrirtæki í atvinnustarfsemi nota til auðkenna vörur sínar og þjónustu og auðvelda þannig neytendum að kaupa aftur það sem ánægja var með. Sterk vörumerki bora sér leið inn í undirmeðvitund neytenda og skapa þar sterkar tilfinningar. Markmið eigenda slíkra merkja er að tilfinningarnar séu jákvæðar.

Íslensk fyrirtæki hafa verið dugleg að sækja um skráningu vörumerkja á síðustu árum og á árinu 2021 voru umsóknirnar nærri 700; tæplega tvær á hverjum degi ársins. En vörumerkin sem verða til á hverjum degi eru mun fleiri því aðeins hluti þeirra ratar til Hugverkastofunnar sem vörumerkjaumsókn.

Á hverjum degi verða neytendur varir við hljóðmerki. Við þekkjum öll hljóðið í ljóninu frá MGM sem hefur heilsað okkur á hvíta tjaldinu í heila öld, Netflix tónana og tikkið í klukkunni í 60 Minutes. Við heyrum þessi hljóð og við vitum nákvæmlega hvað er að gerast.

Það skemmtilega er að það er til töluverður fjöldi íslenskra merkja sem innihalda hljóð. Við erum umkringd þeim alla daga. Í útvarpi, sjónvarpi og á samfélagsmiðlum. Þau gera lífið skemmtilegra en gegna líka nákvæmlega sama hlutverki og hefðbundin vörumerki; þau hjálpa neytendum að þekkja vörur og þjónustu.

Það er tiltölulega stutt síðan fyrst var hægt að skrá hljóð sem vörumerki hjá Hugverkastofunni. Fyrsta umsóknin um skráningu á hljóði barst árið 2019 og síðan hafa tvær umsóknir bæst við. Öll eru merkin erlend.

Breyttir tímar og tækni kalla á breytta miðlun og það fer ekki framhjá neinum að fjölmörg íslensk fyrirtæki hafa búið til sinn hljóðheim og nota í sínu markaðsefni. Þau átta sig á að þarf að nálgast fólk með öðrum og fjölbreyttari hætti en áður. Við tengjum hiklaust raddir, hljóð og tónlist við ákveðnar vörur og þjónustu – og það er ekkert nýtt. Útvarps- og sjónvarpsþættir hafa lengi átt sín stef sem kalla okkur að tækjunum.

Það verður forvitnilegt að fylgjast með því hvort íslenskir aðilar taka við sér og sækja um skráningu hljóðmerkja á næstu misserum. Við á Hugverkastofunni erum a.m.k. klár í slaginn.

MGM:

60 Minutes:

Netflix:

 

Kringlan:

 

Hagkaup:

 

Domino‘s:

Fyrri

Framtíð í hugverkadrifnu hagkerfi

Næst

Sýnum verðmætasköpun í hugverki!