Pistlar

4
/5

Hugverkaréttur í tölvuleikjaiðnaðinum

Árni Halldórsson

vörumerkjarannsakandi

Tölvuleikjaiðnaðurinn er vaxandi grein og tölvuleikir í auknum mæli að slá við öðrum afþreyingarmiðlum. Samkvæmt skýrslu greiningarfyrirtækisins Newzoo er áætlað að fjöldi tölvuleikjaspilara árið 2021 hafi verið um þrír milljarðar sem er rúmlega þriðji hver jarðarbúi. Því kemur ekki á óvart að um er að ræða gríðarlega verðmæta- og atvinnuskapandi iðnað sem veltir milljörðum.

Oft liggur mikil og dýr vinna að baki hönnun og þróun tölvuleikja og oft tekur mörg ár að koma leik á markað. Það er því mikilvægt fyrir tölvuleikjaframleiðendur að uppskeraárangur erfiðis síns. Hugverkaréttur spilar þar lykilhlutverk en kjarni tölvuleiks eru þau hugverk sem í honum felast. Þetta geta verið allt frá tæknilegum lausnum á bak við leikinn yfir í efnivið hans eins og grafík og sögupersónur. Með því að vernda hugverk sín geta framleiðendur staðið betur vörðum leiki sína og aukið fjárhagslegt verðmæti þeirra. Vernduð hugverk geta verið öflug samningatól, eftirsóknarverð fyrir fjárfesta, og opnað dyr að tekjulindum eins og leyfisveitingum til þriðju aðila.

Ekkert eitt svið hugverkaréttar nær utan um öll hugverk í tölvuleikjum. Rétt verndun hugverka á bak við tölvuleiki snýst því oft um samþætta notkun ýmissa tegunda hugverkaréttinda.

Höfundarréttur er sá hugverkaréttur sem mest fer fyrir sökum þeirra fjölbreyttu viðfangsefna sem hann nær til. Um er að ræða þau listrænu sköpunarverk sem verða til sem efniviður leiks og bregður fyrir skilningarvitin þegar hann er spilaður. Má þar nefna útlit leiksins og sögupersóna, tónlist og hljóðbrot sem heyrast í leiknum og þætti í framvindu hans eins og söguþráð og samtöl. Listinn er ekki tæmandi. Hugmyndin á bak við leikinn er undanskilin en höfundarréttur verndar aðeins framsetningu hugmyndar en ekki hugmyndina sjálfa. Auk þess nær hann yfir grunnkóðann sem leikurinn er keyrður á. Höfundarréttur verður til sjálfkrafa og endist þar til 70 ár eru liðin frá andláti höfundar.

Einkaleyfi geta verndað tæknilegar uppfinningar á sviði tölvuleikja eins og lausnir á bak við spilun þeirra eða aðferðir og ferli sem leikirnir framkvæma. Einkaleyfi veitir einkarétt til ákveðins tíma til að hagnýta uppfinninguna og rétt til að koma í veg fyrir að aðrar vörur komi inn á markað með sams konar tæknilegar lausnir. Í skiptum fyrir einkaréttinn skuldbindur eigandinn sig til þess að opinbera uppfinningu sína svo hægt sé aðbyggja ofan á hana og stuðla að þekkingu og framþróun á sviðinu. Líkt og með höfundarrétt verndar einkaleyfi ekki hugmyndina að uppfinningunni heldur aðeins tæknilega útfærslu hennar. Ákveðnir þættir eru einnig undanskildir einkaleyfavernd, eins og spilareglur, reikniformúlur og í mörgum tilfellum tölvuforrit. Hægter að viðhalda einkaleyfi í allt að 20 ár.

Vörumerki eru auðkenni sem tölvuleikjaframleiðendur nota til að aðgreina sig á markaði. Vörumerki geta verið orð eða samsetningar orða og mynda (lógó), eins og nöfn framleiðenda, tölvuleikja eða sögupersóna. NINTENDO, FORTNITE og PIKACHU eru dæmi um vörumerki sem eru skráð og vernduð á Íslandi. Vörumerki þurfa þó ekki að vera einskorðuð við orð og myndir en geta sem dæmi verið í formi þrívíddar, hljóða, hreyfinga og heilmynda. Opnað var fyrir skráningu slíkra vörumerkja á Íslandi árið 2020. Ýmsir þættir tölvuleikja geta því verið vörumerki, eins og sögupersónur, hljóðbrot og stutt atburðarás.

Vörumerki gildir í 10 ár en hægt er að tryggja vernd þess um ótiltekinn tíma með endurnýjun og notkun.

Hönnun er vernd á útliti. Í tölvuleikjaiðnaðinum eru ýmis hugverk sem hægt er að vernda sem hönnun, eins og viðmót tölvuleiks með skjáskotum, útlit persóna og innanstokksmuna og lögun búnaðar sem stýrir leiknum, eins og fjarstýringa og annarra fylgihluta. Hönnun nær ekki til tæknilegrar virkni þess sem hún verndar heldur aðeins til útlits þess. Skráningu hönnunar er hægt að viðhalda í allt að 25 ár.

Hugverk sem verða til við gerð tölvuleikja geta verið verðmæt fyrir höfunda þeirra og veitt þeim forskot á keppinauta sína. Þess vegna er mikilvægt að bera kennsl á þau og meta hver þeirra skuli vernda og með hvaða hætti. Tímasetning getur skipt máli en hugverk sem felur í sér tæknilega nýjung getur þurft að vernda snemma í þróunarferlinu ef hætta er á að útgáfa tölvuleiks opinberi tæknina og komi í veg fyrir veitingu einkaleyfis. Eins þarf að vera vakandi fyrir réttindum annarra. Til dæmis getur markaðssetning tölvuleiks án vörumerkjaverndar haft kostnaðarsamar afleiðingar í för með sér ef leikir með sambærileg auðkenni eru þegar á markaði. Því er í mörg horn að líta þegar kemur að verndun tölvuleikja og þá getur verið gagnlegt að leita sérfræðiaðstoðar til þess að kortleggja þau hugverk sem í leikjunum felast og leggja grunn að farsælli hugverkaáætlun. Ef ekki er hugað að hugverkum getur árangri verið teflt í tvísýnu eða leikurinn hreinlega verið úti.

Fyrri

Sýnum verðmætasköpun í hugverki!

Næst

Hvað er líkt með vörumerki og vörumerki?