Ávarp forstjóra

Þetta eru óvenjulegir tímar. Um þessar mundir stendur heimsbyggðin frammi fyrir óvæntri áskorun þar sem COVID-19 heimsfaraldurinn hefur hægt verulega á hjólum efnahagslífsins og lamað heilu samfélögin.

Stór hluti þjóðarinnar og heimsins alls sinnir nú fjarvinnu og er Hugverkastofan meðal þeirra vinnustaða sem gat flutt starfsemi sína í fjarvinnu á nánast einni nóttu. Á stuttum tíma náðum við að undirbúa okkur fyrir þessar miklu breytingar, m.a. með því að nýta okkur fjarfundaleiðir og aðrar rafrænar samskiptalausnir. Starfsfólk Hugverkastofunnar hefur tekist á við þessar aðstæður með jákvæðni og af drifkrafti, ásamt því að sýna mikla þrautseigju og sveigjanleika í þessum nýju aðstæðum.

Á sama tíma hefur þjónusta okkar við viðskiptavini orðið nær eingöngu rafræn og hefur mikilvægi stafrænna lausna og fjarþjónustu svo sannarlega verið staðfest. Það ber þó að hafa í huga að góð samskipti eiga jafn mikið við í þessum aðstæðum og áður. Hugverkastofan leggur ríka áherslu á að koma til móts við þarfir einstaklinga og fyrirtækja og kappkostar að hægt verði að veita nánast alla þjónustu rafrænt eða með fjarþjónustu. Það er jafnframt okkar stefna að allar umsóknir og erindi verði rafræn.

Að sama skapi er ársskýrslan okkar í ár einungis gefin út rafrænt. Árið 2019 var sérstaklega eftirminnilegt fyrir það stóra skref sem var stigið þegar stofnunin breytti um nafn, úr því að vera Einkaleyfastofan í Hugverkastofan. Þegar litið er um öxl er sérstök tilfinning að kveðja Einkaleyfastofuna að nafninu til. Á þeim tæplega 29 árum sem stofnunin hefur starfað hefur hún vaxið og dafnað í takt við aukin umsvif hugverkageirans á heimsvísu og aukna áherslu á nýsköpun hér á landi. Þessi auknu umsvif eru sýnileg í gríðarlegri aukningu hugverkaskráninga á tímabilinu. Samfélagið, hagkerfi og iðnaður hafa tekið stakkaskiptum á þessum tíma og í dag eru helstu verðmæti fyrirtækja óáþreifanleg. Einkaleyfastofan hefur þar leikið lykilhlutverk í að aðstoða lögaðila við að vernda verðmæti og nýta þau. Á þeim grunni byggir Hugverkastofan nú.

En til hvers að skipta um nafn? Augljósa ástæðan er sú að heitið Einkaleyfastofan fangar ekki starfssvið og hlutverk starfsemi okkar, þar sem við eigum tengiflöt við allar tegundir hugverka á einn eða annan hátt. Heiti stofnunarinnar gat því verið takmarkandi og hamlandi í umræðunni um mikilvægi hugverkaverndar almennt. Önnur ástæða er sú að hugtakið einkaleyfi getur valdið misskilningi, því á íslensku getur það jafnvel átt við einhvers konar sérleyfi lögum samkvæmt og felur þannig í sér aðra merkingu en enska heitið patent. Ég tel hins vegar mikilvægustu ástæðuna vera þá, að með nýju heiti getum við betur náð til íslenskra fyrirtækja, frumkvöðla og aðila í nýsköpun til þess að auka vitund um hugverkavernd og mikilvægi þess að vernda verðmætin.

Auk þess sem heiti stofnunarinnar var breytt, var árið 2019 viðburðarríkt að ýmsu öðru leyti. Má þar nefna að við vorum í þriðja sæti sem Stofnun ársins í árlegri könnun Sameykis og hlutum því enn og aftur nafnbótina Fyrirmyndarstofnun. Ég er stolt og ánægð með þennan árangur síðustu ára, sem ég tel vera gott merki um þann samhenta hóp og öfluga mannauð sem Hugverkastofan býr yfir.

Á árinu var Ísland í fyrsta sinn tekið inn í hóp rannsóknarlanda í reglulegri skýrslu Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) og Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO) um umfang hugverkaiðnaðar og framlag hans til hagkerfa og samfélaga. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að íslensk fyrirtæki sem leggja mikið upp úr hugverkaréttindum eru orðin undirstöðuatvinnuvegur hér á landi sem stendur undir gríðarlega miklum verðmætum og atvinnusköpun. Niðurstöðurnar sýna ennfremur að slíkur iðnaður skapar betur launuð störf og þolir frekar efnahagsáföll en hefðbundinn iðnaður.

Það var ánægjulegt að eiga í ríkulegu samstarfi við okkar helstu hagsmunaaðila á árinu. Ber þar að nefna samstarf við Icelandic Startups og Nýsköpunarmiðstöð um þátttöku í hinum ýmsu verkefnum, viðburðum og miðlun fræðslu um hugverk og hugverkaréttindi. Samstarf af þessu tagi er öllum til hagsbóta og ég hlakka til að halda því áfram á næstu árum.

Þó að Einkaleyfastofan heyri sögunni til, ef svo má segja, er ekki þar með sagt að sögu hennar sé lokið. Hlutverk okkar sem Hugverkastofan mun áfram vera að hvetja til nýsköpunar og stuðla að verðmætasköpun og framförum hér á landi. Hugverkastofan byggir á traustum og góðum grunni. Það er þess vegna sem Mark Twain sagði eitt sinn að land án einkaleyfastofu og góðra einkaleyfalaga væri eins og krabbi. Hann getur bara ferðast til hliðar og aftur á bak, en ekki fram á við.

Í kjölfar þeirra tímamóta sem Ísland og umheimurinn standa á í dag, munum við gegna mikilvægu hlutverki við að aðstoða fyrirtæki við að skapa verðmæti og störf. Hugverk eru nefnilega verðmæti. Þau eru viðskiptatæki sem geta skapað grundvöll fyrir árangur fyrirtækja, verið leið á nýja markaði og kveikt samstarf á sviði nýsköpunar. Hlutverk Hugverkastofunnar hefur því aldrei verið mikilvægara en einmitt í þessum fordæmalausu aðstæðum.

Ljóst er að íslensk fyrirtæki standa frammi fyrir miklum áskorunum. En það ætti ekki að vanmeta nýsköpun og getu íslenskra fyrirtækja til að laga sig að aðstæðum. Líkt og Einkaleyfastofan gerði með góðum árangri í 28 ár mun Hugverkastofan vera íslenskum fyrirtækjum innan handar á krefjandi tímum og aðstoða þau við að skapa og halda utan um sín verðmæti. Ég er þess fullviss að grunnurinn sem stofnunin er byggð á muni vera íslensku samfélagi til hagsbóta um ókomin ár.
Aftur heim
Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri